Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

BHM varar við hækkun skatta á háskólamenntaða

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV
Bandalag háskólamanna varar við því að reynt verði að bæta afkomu ríkissjóðs með því að hækka skatta háskólamenntaðs fólks. Þetta kemur fram í umsögn BHM um fjármálaáætlun stjórnvalda fyrir árin 2022 - 2026. Þar segir að félagið vari við því að tekjuskattur á háskólamenntaða verði hækkaður við útfærslu afkomubætandi ráðstafana í opinberum fjármálum næstu árin.

Í umsögninni segir að verði tekjuskattur á háskólamenntað fólk hækkaður til að bæta afkomu ríkissjóðs muni það draga úr hvata fyrir fólk til að sækja sér háskólamenntun. Bent er á að munur á ráðstöfunartekjum háskólafólks og þeirra sem aðeins hafa lokið grunnskóla sé mun minni hér á landi en í öðrum Evrópulöndum. Því megi segja að fólk hér á landi hafi minni hvata til að sækja sér háskólamenntun en fólk annars staðar í álfunni. 

Óskynsamlegt að hætta skuldasöfnun of snemma

BHM varar jafnframt við því að stefna að stöðvun skuldasöfnunar ríkissjóðs fyrir árslok 2025. Verði efnahagsbatinn minni en stjórnvöld reikni með sé það óskynsamleg aðgerð og með henni sé hvorutveggja „efnahagslegum stöðugleika og aðgerðum til að tryggja velferð þeirra sem verst koma undan kófi“ fórnað í nafni sjálfbærni á allra næstu árum.

Stóra verkefnið að vinna bug á atvinnuleysi

Í umsögninni segir að efnahagáfallið vegna heimsfaraldursins „hafi verið þyngra hér á á landi en víðast annars staðar í heiminum“ og að „[l]íklegt sé að áhrif kórónukreppunnar vari langt inn í þennan áratug.“

Stóra verkefnið sé því að draga úr atvinnuleysi, en „fjöldi háskólamenntaðra á atvinnuleysisskrá hafi nær fimmfaldast á síðustu þremur árum.“ Hagkerfið geti beðið varanlegan skaða, grípi stjórnvöld ekki til sértækra aðgerða. Því sé mikilvægt „að unnið verði gegn langtímaatvinnuleysi og áhrifum þeirra ójöfnu byrða sem kreppan hefur lagt á þjóðina.“

 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV