Ákvörðun Dana hefur að gera með framboð bóluefna

14.04.2021 - 16:46
Mynd: RÚV / RÚV
Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar segir að ákvörðun Dana um að hætta að nota AstraZeneca byggi á því að önnur bóluefni séu í boði. Danir hafi þegar notað nokkuð mikið af AstraZeneca og þjóðir horfi einnig til þess hve langt þær eru komnar í að bólusetja vissa aldurshópa.  

AstraZeneca og Janssen til skoðunar

Danir tilkynntu í dag að þeir ætluðu að hætta alfarið að nota bóluefnið frá AstraZeneca. Vika er síðan að Lyfjastofnun Evrópu komst að þeirri niðurstöðu að skrá ætti blóðtappa sem sjaldgæfa aukaverkun með AstraZeneca bóluefninu.

Einnig hafa komið upp tilfelli í tengslum við Janssen bóluefnið og er búið að fresta dreifingu á því í Evrópu á meðan Lyfjastofnun Evrópu metur hættuna á tengslum bóluefnisins við blóðtappamyndun. Farsóttastofnun og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna tilkynntu líka í gær að hætt yrði að nota bóluefni Janssen að sinni.

Rúna segir að umræðuna um AstraZeneca bóluefnið og Janssen verði að aðskilja. Johnson og Johnson sem framleiðir Janssen hafi sjálft ákveðið að dreifa því ekki í Evrópu á meðan bandaríska lyfjastofnunin sé að skoða það frekar.

Bandaríkjamenn hafi bólusett tæplega 7 milljónir með Janssen bóluefninu og komið hafi upp sex tilfelli af þessum blóðtappa, sem er sjaldgæfur og hættulegur. Eitt andlát hafi orðið út af honum í Bandaríkjunum.

„Og þess vegna er mjög mikilvægt að meta það hvort það séu sérstakir hópar útsettir fyrir  þessu. Og í Bandaríkjunum voru þetta konur á bilinu 18 - 48 ára og þetta kom á tímabilinu 6 til 13 dögum eftir bólusetningu.“  

Ennþá sé verið að kanna hvort orsakasamhengi sé á milli blóðtappans og bólusetningarinnar og þess vegna hafi verið ákveðið að bíða með að nota það.

Önnur bóluefni í boði 

Annað sé uppi á teningnum í Danmörku. Heilbrigðisyfirvöld þar hafi ákveðið að hætta að nota AstraZeneca. „Danir eru búnir að nota töluvert mikið af Astra Zeneca sérstaklega í byrjun. Þeir fengu 4 alvarleg tilfelli og ég held að það hafi verið 2 andlát hjá þeim og það voru heilbrigðisstarfsmenn.  [..] Þessi ákvörðun byggir kannski á því að það eru önnur bóluefni í boði. Og þetta eru bara ákvarðanir sem eru teknar í hverju landi fyrir sig. Það er líka horft til þess hvar eru löndin stödd í faraldrinum, hvert þau eru komin í aldurshópunum og eitthvað slíkt

Rúna segir að AstraZeneca bóluefnið hafi verið notað mjög mikið, eins og til dæmis í Bretlandi. Þar hafi blóðtappi ekki komið fram fyrr en byrjað var að bólusetja yngri hópana. Nú sé verið að kalla eftir skýrari línum frá Evrópsku lyfjastofnuninni um AstraZeneca.  

Átta tilkynningar um blóðtappa hér á landi

Sexhundruð sjötíu og níu tilkynningar hafa borist Lyfjastofnun Íslands um mögulegar aukaverkanir af bóluefnunum við COVID-19. Fjörutíu og sex eru flokkaðar alvarlegar og þar af 15 andlát. Átta tilkynningar hafa borist um mögulegan blóðtappa, 5 frá AstraZeneca, tvær frá Pfizer og ein hjá Moderna. Rúna segir að þetta séu hins vegar ekki þeir blóðtappar sem talað er um í tengslum við AstraZeneca  

„Þegar verið er að skoða mögulegar tilkynningar um aukaverkanir þá er alltaf skoðað hver eru tíðnitölurnar almennt í þýðinu sem verið er að bera sig saman við sem sagt í  hópnum og er þetta eitthvað umfram það. Það hefur ekkert sést hjá okkur. Þetta er alveg í takti við það sem hefði mátt búast við án bólusetninga. “

Rúna segir að bóluefnin AstraZeneca og Janssen séu flókin. Þetta eru genaferju bóluefni og veira er notuð til að kalla fram mótefnavakann.

„Þetta virðist líkjast við þá blóðtappa sem hafa komið fram við sjúkdóminn sjálfan í ákveðnum tilfellum.“

Pfizer og Moderna með betri vörn við nýjum afbrigðum

Hvað með hin bóluefnin Pfizer og Moderna þar sem notast er við aðra tækni, svokölluð mrna bóluefni.  Rúna segir að mögulega séu þau laus við þetta „Mögulega eru þau er frí frá þessu.“  

Annað sem þjóðir eru að horfa til eru vörnin sem nýju bóluefnin veiti við hinum ýmsu afbrigðum veirunnar. „Það virðist sem bæði Pfizer og Moderna hafi betri vörn sérstaklega gegn þessu suðurafríska afbrigði.  Janssen var reyndar líka með það en þetta er líka það sem verið að er að horfa til þegar verið er að taka ákvarðanir um hvaða bóluefni á að nota hjá fjölda fólks. Þú ert að horfa á að þetta endist út árið alla vega.“