24.000 kröfur: „Virðist allt vera með miklum ólíkindum“

14.04.2021 - 22:04
Mynd: Ingvar Haukur Guðmundsson / Ingvar Haukur Guðmundsson
Innheimtufyrirtæki sem keypt hefur kröfur smálánafyrirtækja setti í gær kröfur inn í heimabanka fólks, sem sumar voru mun hærri en upphaflegar kröfur. Umboðsmaður skuldara segir málið með miklum ólíkindum, og að síminn hjá embættinu hafi ekki stoppað í dag. Neytendasamtökin telja að stór hluti krafnanna varði ólögleg lán. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins segir að allri lagalegri óvissu hafi verið eytt. Kröfurnar séu samtals 24.000.

Í gær barst fréttatilkynning frá fyrirtækinu BPO innheimtu, þess efnis að fyrirtækið hefði keypt allt kröfusafn smlánafyrirtækjanna Kredia, Hraðpeninga, Smálána, 1909 og Múla. Í tilkynningunni segir að til 15. maí bjóði fyrirtækið öllum skuldurum, sem vilja leysa úr sínum málum án dráttarvaxta og innheimtukostnaðar, að ganga frá sínum skuldum óháð því hversu gamlar þær eru. 

Í tilkynningu sem Neytendasamtökin sendu frá sér í dag kemur fram að fyrirspurnum hafi rignt inn vegna málsins. BPO innheimta hafi sett kröfur í heimabanka fólks seint í gærkvöldi, með eindaga sama dag. Dæmi séu um að kröfurnar hafi hækkað mikið og jafnvel tvöfaldast. Svo virðist því sem ekki sé aðeins verið að rukka höfuðstólinn, heldur einnig lántökukostnað, innheimtukostnað og vexti.

Stöðluð svör

Umboðsmaður skuldara hefur ekki heldur farið varhluta af þessum tíðindum.

„Ég hef fullan skilning á því að fólk er í óvissu, síminn hjá okkur hefur ekki stoppað í morgun, og þetta virðist allt vera með miklum ólíkindum,“ segir Ásta Sigrún Helgadóttir, umboðsmaður skuldara.

Ásta segir að upphæðirnar sem birtust í heimabönkum fólks í gær séu oft óskiljanlegar.

„Við höfum bent fólki á að hafa samband við þetta innheimtufyrirtæki en því er ekki svarað. Síminn hringir bara út. Og svo fær það bara svör í tölvupósti sem eru stöðluð.“

Í mörgum tilfellum sé fólk búið að greiða hluta lána sinna niður eða komið í greiðsluaðlögun.

„Og þetta hlýtur að vera brot á góðum innheimtuháttum sem kveðið er á um í lögum um innheimtu,“ segir Ásta.

Ólögleg lán

Guðlaugur Magnússon, framkvæmdastjóri BPO innheimtu, gaf ekki kost á viðtali þegar eftir því var leitað í dag. Í skriflegu svari til fréttastofu sagði hann meðal annars að alls séu kröfurnar 24.000. Varðandi þær kröfur sem hafi hækkað sé nauðsynlegt að hafa samband við fyrirtækið til þess að fá að greiða aðeins höfuðstólinn. Það sé alveg á hreinu að fólk sem tók 30.000 króna lán sem dæmi, þurfi aðeins að greiða 30.000 krónur til 15. maí. Í svarinu segir Guðlaugur að allri lagalegri óvissu hafi verið eytt.

Á heimasíðu fyrirtækisins kemur fram að það hafi fengið úthlutað innheimtuleyfi frá Fjármálaeftirlitinu í byrjun árs 2020.

Neytendasamtökin ráðleggja fólki að greiða til baka höfuðstól smálána, en ekki ólöglega vexti þeirra. Í þvi sambandi vilja samtökin minna á að Áfrýjunarnefnd neytendamála hafi staðfest að fram til maí 2019 hafi vextir þessara lána verið hærri en lög leyfa. Ætla megi að stór hluti þeirra krafna sem BPO innheimti nú varði ólögleg lán.

Þetta fyrirtæki segist bjóða fólki að borga bara höfuðstólinn, og að það losni þá við að borga innheimtukostnað og dráttarvexti, er það ekki jákvætt út af fyrir sig?

„Það þarf fyrst að fá upplýsingar um kröfuna, hver er höfuðstóllinn, þannig að það er ekki hægt að henda einhverju út í heimabankann og fá engar upplýsingar frekar og að geta ekki svarað fyrirspurnum á sama tíma,“ segir Ásta.