Tilslakanir skynsamlegar og „akkúrat sem við þurfum“

13.04.2021 - 20:54
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
„Nú erum við stödd út frá smitum og öðru á svipuðum stað og við vorum í janúar. Þá var smitum smám saman að fækka. Okkur tókst með þessum aðgerðum síðustu þrjár vikur að ná utan um þetta. Það er skynsamlegt að opna og fylgja þessum tillögum. Ég held að þetta muni hjálpa okkur við að sjá ljósið og vorið er að koma,“ sagði Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn í Kastljósi í kvöld.

Á fimmtudag mega tuttugu koma saman í stað tíu, sundlaugar og líkamsræktarstöðvar mega opna að nýju með takmörkunu, leikhúsin geta opnað dyrnar að nýju og barir og krár lúta sömu reglum og veitingastaðir.

Hefðir þú viljað sjá meiri tilslakanir núna? „Nei, mér fannst þetta bara alveg passlegt. Ég held að þetta sé akkúrat sem við þurfum núna og er mjög skynsamleg leið.“ Víðir segir að þríeykið svokallaða sé ekki undir þrýstingi að leggja til að slakað verði meira á sóttvarnaraðgerðum en skynsamlegt er.

Þrír greindust utan sóttkvíar í gær. Tugir eru í sóttkví eftir smit í Menntaskólanum í Hamrahlíð. Víðir segir að áfram þurfi fólk að vera viðbúið tilslökunum og hertum sóttvarnaaðgerðum á víxl. Reglunum hafi nú verið breytt sextíu sinnum á þessu rúma ári. „Ég er sannfærður um að þetta er rétt ákvörðun. Svo ef reynslan segir eitthvað annað þá megum við vera hrædd við að taka nýja ákvörðun,“ segir Víðir.

Víðir segir að fólk þurfi að líta á björtu hliðarnar. „Það er margt sem við getum gert, við getum farið út að ganga, hreyft okkur, við erum frjáls ferða okkar. Við þurfum að einblína að þessum jákvæðu þáttum. Það skiptir mjög miklu máli, ekki einblína á þetta neikvæða. Við höfum staðið okkur frábærlega, hugsið ykkur hvað okkur hefur tekist að gera sem íslenskt samfélag.“

Áskorun næstu vikna að skipuleggja gossvæðið

Í Geldingadölum hefur nú gosið í tæpan mánuð. Aðgengi og öryggi á svæðinu hefur verið til umræðu allan þann tíma. „Ég held það sé áskorun næstu vikna og mánaða að þetta svæði geti tekið á móti þeim sem vilja heimsækja það. Og þar er auðvitað margt sem kallar á að þetta svæði sé vel skipulagt - til dæmis bara á sóttvaarnarmálum, að það sé hægt að halda þeirri fjarlægð sem þarf, sérstaklega á gönguleiðunum. Svo þarf að huga að örygginu út frá þeim hættum sem eru á svæðinu til dæmis að nýjar sprungur opnist, við sjáum það nánast á hverjum degi núna.“