Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Telur skotið óviljaverk - Ætlaði að beita rafbyssu

Mynd: Skjáskot úr myndbandi AP / Skjáskot úr myndbandi AP
Fjörutíu manns voru handtekin í mótmælum í nótt í borginni Brooklyn Center, norður af Minneapolis í Bandaríkjunum. Fólkið var að mótmæla lögregluofbeldi eftir að lögreglumaður skaut Daunte Wright, tvítugan mann af bandarískum og afrískum uppruna, til bana um helgina. Töluverð ólga er í borginni þar sem fram fara réttarhöld yfir lögreglumanninum sem varð George Floyd að bana síðasta vor. 

Lögregla stöðvaði Wright þar sem hann var undir stýri á bíl þar sem hann hafði framið umferðarlagabrot. Þá kom í ljós að þegar hafði verið gefin úr handtökuskipun á hendur honum. Honum tókst að sleppa frá lögreglunni og aftur inn í bílinn en þá skaut lögreglumaður hann. Sjálfur var hann óvopnaður. 

Lögregluyfirvöld í Brooklyn Center birtu síðdegis í gær myndband úr búkmyndavélum lögreglu á vettvangi. Í myndbandinu má heyra lögreglukonu vara við því, þegar Wright fer aftur inn í bíl sinn á meðan lögregla reynir að handtaka hann, að hún ætli að beita rafbyssu. Örstuttu síðar skaut hún hann með byssu með þeim afleiðingum að hann lést. Af myndbandinu að dæma var lögreglukonunni mjög brugðið þegar hún áttaði sig á því hvers konar vopni hún hafði beitt. Myndbandið má sjá í spilaranum hér fyrir ofan. 

Tim Gannon, lögreglustjóri, sagði á fundi með fjölmiðlafólki í gær að hann telji að þetta hafi verið óviljaverk, samkvæmt frétt BBC Breska ríkisútvarpsins. Lögreglukonan hafi ætlað að sækja rafbyssu en hafi ruglast. 

epa09131884 A protester holds a sign reading 'Justice for Daunte Wright' outside the Brooklyn Center Police Department after a night of unrest following a fatal officer involved shooting; in Brooklyn Center, Minnesota, USA, 12 April 2021. A Brooklyn Center police officer identified as Kim Potter fatally shot 20-year-old Daunte Wright during a traffic stop on the afternoon of 11 April 2021.  EPA-EFE/TIM EVANS
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Mótmælt var í nótt aðra nóttina í röð, þrátt fyrir að útgöngubann sé í gildi. Mótmælendur hentu ýmsu í átt að lögreglu og skutu flugeldum. Því svaraði lögregla með táragasi. Réttarhöldin yfir Derek Chauvin, sem varð George Floyd að bana í maí, fara fram þessa dagana aðeins í nokkurra kílómetra fjarlægð frá þeim stað þar sem Wright var skotinn. Verjendur Chauvin óskuðu í gær eftir því að kviðdómarar í málinu verði í nokkurs konar einangrun næstu daga þar sem þeir gætu orðið fyrir áhrifum af atburðum á svæðinu þessa stundina. Dómari neitaði þeirri bón lögmannanna. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir