Segja mat AGS á stuðningsaðgerðum „skekkt“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fjármála- og efnahagsráðuneytið segir að mat Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) á beinum stuðningsaðgerðum stjórnvalda hér á landi vegna COVID-19 sé skekkt. Þetta kemur fram í nýrri tilkynningu frá ráðuneytinu.

Samkvæmt greiningu AGS, sem fréttastofa greindi frá í gær, hafa beinar efnahagsaðgerðir til að stemma stigu við áhrifum faraldursins verið einna minnstar hér á landi í alþjóðlegum samanburði. AGS flokkaði Ísland sem rautt land í þessu tilliti, ásamt Tyrklandi, Albaníu, Hvíta-Rússlandi, Svartfjallalandi, Bosníu-Hersegóvínu og Moldóvu, þar sem stuðningur hefur verið undir 2,5 prósentum. Samkvæmt greiningu sjóðsins hefur beinn stuðningur víðast hvar í Evrópu verið yfir 5 prósentum af landsframleiðslu, og mestur í Bretlandi, Þýskalandi, Austurríki og Grikklandi, þar sem hann er yfir 10 prósentum af landsframleiðslu.

Segja ekki horft til allra aðgerða

Í nýrri tilkynningu sem ráðuneytið sendi frá sér í dag er vakin athygli á því að beinn stuðningur ríkisins vegna heimsfaraldurs COVID-19 hafi verið umtalsvert meiri en haldið er fram í gagnagrunni sjóðsins og séu allar beinar aðgerðir teknar inn nemi stuðningurinn 9 prósentum af landsframleiðslu:

„Fyrir Ísland er matið skekkt. Leiðir sú skekkja af því að aðeins er horft til nokkurra aðgerða, einkum hlutabóta, greiðslu launa á uppsagnarfresti og útgjalda innan heilbrigðiskerfisins í tilfelli Íslands. Þá nær það aðeins til ársins 2020 en ekki til ársins í ár og þeirra næstu ólíkt því sem almennt gildir um önnur lönd í gagnagrunninum. Margar aðgerðir eru því ýmist ekki taldar með í mati AGS fyrir Ísland eða aðeins taldar með að hluta. Þá er í matinu stuðst við nýtingu úrræða hér á landi, en áætlanir um aðgerðir notaðar vegna aðgerða ýmissa annarra ríkja,“ segir í tilkynningunni.

Því séu ýmsar stuðningsaðgerðir, svo sem fjárfestinga- og uppbyggingarátak, tekjufallsstyrkir, viðspyrnustyrkir og framlenging tekjutengdra atvinnuleysisbóta eru ekki taldar með í mati sjóðsins. Ekki séu talin með aukin framlög til ýmissa félagslegra málefna, ekki aukinn stuðningur við rannsóknir og þróun, og hvorki lækkun skatta og gjalda né lán með ríkisábyrgð.

„Heilt yfir er því beinn stuðningur stjórnvalda hér á landi umtalsvert meiri en lesa má úr samanburði AGS. Ábendingu um þetta hefur verið komið á framfæri við sjóðinn,“ segir að lokum.