Nýr götusópari í baráttu gegn svifryksmengun á Akureyri

13.04.2021 - 16:21
Mynd með færslu
 Mynd: Akureyrarbær
Nýr og afkastamikill götusópur hefur verið tekinn í notkun hjá Akureyrarbæ. Kaupin eru hluti af aðgerðum gegn svifryksmengun á Akureyri.

Kaupin á nýjum götusóp voru boðin út í fyrravor, en kaupverðið er 40 milljónir króna. Sópurinn er á metanbíl í samræmi við umhverfis- og samgöngustefnu bæjarins. 

Svifryksmengun mælist reglulega yfir heilsuverndarmörkum á Akureyri og er þessi fjárfestingin liður í aðgerðum bæjarins til að stemma stigu við þessarri mengun. „Rík áhersla er lögð á þetta verkefni um þessar mundir og er meðal annars unnið að greiningu á efnasamsetningu og uppruna svifryks á Akureyri,“ segir í frétt á vef Akureyrarbæjar.

„Vonir standa til að með samhentu átaki bæjarins við að hreinsa betur göturnar og íbúa við að draga úr bílaumferð og notkun nagladekkja megi ná góðum árangri í baráttunni við svifrykið.“