Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Minna svifryk með minni hraða

13.04.2021 - 19:22
Mynd: Fréttir / Fréttir
Draga má úr svikryksmengun um allt að 40% með því að lækka hraða ökutækja, samkvæmt nýrri íslenskri rannsókn. Mest eru áhrifin þegar dregið er úr hraða ökutækja á nagladekkjum.

Sviryksmengun er töluvert vandamál hér á landi, ekki hvað síst á þessum árstíma þegar flestir eru ennþá á nagladekkjum. Lækkun hámarkshraða gæti hins vegar dregið verulega úr tilurð svifryks, og um leið sliti gatna. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn Þrastar Þorsteinssonar, prófessors í umhverfis-og auðlindafræði við Háskóla Íslands, um áhrif hraða á mengun vegna umferðar. 
 
„Helstu niðurstöður eru þær að magn svifryks sem er framleitt vegna vegslits sérstaklega er línulegt fall af hraða. Og þar sem nagladekkin spæna upp malbik og vegslitið er 20 til 30 sinnum meira vegna nagladekkja, þá hefur það töluvert mikil áhrif að draga úr hraða, sérstaklega þegar nagladekk eru notuð,“ segir Þröstur, sem  vann rannsóknina í samstarfi við Vegagerðina.

„Ein niðurstaðan var sú að það að draga úr hraða úr 50 km/klst niður í 30 km/klst gæti dregið úr myndun svifryks um allt að 40%,“ segir Þröstur.

Misjöfn viðbrögð

Hvers vegna myndast meira svifryk þegar bílum er ekið hraðar?

„Ætli það megi ekki bara útskýra það þannig að þegar ekið er hraðar, þá er meira álag á vegyfirborðinu, þegar naglarnir rekast í, eða þegar dekkið er að snerta vegyfirborðið. Og þess vegna myndast meira svifryk.“

En er ekki margt annað sem hægt er að gera til þess að minnka svifryk, til dæmis að minnka notkun nagladekkja og hreinlega að sópa götur?

„Jú. Einfaldasta ráðið er að minnka notkun nagladekkja. Ef það er tuttugufalt meira, þá framleiðir einn bíll á nagladekkjum jafnmikið og 20 venjulegir bílar,“ segir Þröstur. „Auðvitað er umferðaröryggi stór þáttur og margir treysta nöglum mikið betur en öðrum dekkjum. En samkvæmt því sem maður heyrir frá umferðaröryggissérfræðingum þá eru nýjar tegundir dekkja fyllilega jafnöruggar og gera sama gagn, sérstaklega innan borgarinnar þar sem götur eru yfirleitt ekki þaktar snjó eða ís.“

Þröstur kynnti niðurstöður rannsóknarinnar fyrir fulltrúum í skipulags- og samgönguráði Reykjavíkurborgar í síðustu viku. Hann segir að viðbrögðin hafi verið misjöfn.

„Það var allt frá því að vera mjög vel tekið í það yfir í að menn sögðu að þetta væri skoðun einhvers manns úti í bæ. En þetta eru einfaldlega niðurstöður margra ára rannsókna sem hafa verið gerðar um öll Norðurlöndin og víðar um heim,“ segir Þröstur.