Mikilvægt að vera hæfilega óraunsær

Mynd: Jóhannes Jónsson / RÚV/Landinn

Mikilvægt að vera hæfilega óraunsær

13.04.2021 - 07:50

Höfundar

Í litlu sýningarrými á Nýp á Skarðsströnd vinnur Katrín Sigurðardóttir með hjálp húsráðanda, Þóru Sigurðardóttur, að því að setja upp myndlistarsýninguna: Til staðar. Sýningin er í húsi sem hefur verið verkefni þeirra Þóru og Sumarliða Ísleifssonar síðan 2001.

„Okkur dreymdi um að fást við svona steinhús og vinna með það sem einhverskonar samkomustað fyrir listir og menningu. Og svo kom þetta hús til okkar,“ segir Þóra. 

Húsið var í slæmu ástandi þegar þau Þóra og Sumarliði Ísleifsson tóku við því sem hafði þá staðið autt í um fjörtíu ár, lengur en það hafði verið búið í því. 
 
„Það er mikilvægt að vera hæfilega óraunsær,“ segir Sumarliði. En skref fyrir skref og bút fyrir bút hafa þau Þóra og Sumarliði endurbætt húsið með endurnýtingu að leiðarljósi. Fyrir þremur árum fékk svo síðasti hluti húsaklasans á Nýp upplyftingu, gripahúsið, sem hýsir nú sýningu Katrínar.