Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Lundinn mættur og farinn að setjast upp

13.04.2021 - 13:54
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Lundinn er kominn til landsins og farinn að setjast upp í sínar hefðbundnu lundabyggðir. Lundastofninn, sem var í mikilli lægð, hefur verið að styrkjast jafnt og þétt síðustu ár.

Það lifnar yfir fuglabyggðum víða um land þessa dagana og meðal annars er lundinn nú sestur upp fyrir norðan og austan. Hann er til dæmis kominn í varpstöðvarnar í Grímsey og í Hafnarhólma á Borgarfirði eystra.

Sest væntanleg upp í Eyjum á næstu dögum

Lundinn er um tveimur vikum seinna á ferðinni á Suður- og Vesturlandi og Erpur Snær Hansen, forstöðumaður Náttúrustofu Suðurlands, bíður spenntur eftir að hann komi til Vestmannaeyja. „Og hann sást í gærkvöldi setjast upp í Kaplagjótu, en það virtust bara vera einhverjir sem voru að þjófstarta. Ég er með myndavél úti í Höfða sem tekur myndir á klukkutíma fresti allan sólarhringinn og hún sýndi engar heimsóknir. Þannig að hann er ekki alveg settur upp í heild sinni hérna eins og hann á væntanlega eftir að gera á næstu dögum.“ 

Lundastofninn smám saman náð sér á strik 

Ástand lundastofnsins var orðið afar dapurt og þá einkum á sunnanverðu landinu. En undanfarin fjögur til fimm ár hefur stofninn smám saman náð sér á strik. „Það er kannski ekki orðið gott í heild sinni, en það er að stefna hraðbyri þangað. Og þá væntanlega eiga Vestmannaeyjar langstærstan partinn í því.“

Ljósáta við Eyjar kemur sé vel

Og hann vonast til þess að ljósáta, sem hafi eiginlega komið í staðinn fyrir sandsíli sem fæða lundans við Eyjar, verði áfram til staðar og þá eigi lundinn að braggast vel. En svo geti allt breyst, þetta ráðist mest af ætinu sem fuglinn hafi. „Já, það er nú komið alveg á hreint að þetta er öllu stýrt af fæðunni hérna við Eyjarnar og bara við landið almennt.“