Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Kvörtunum Samherja vegna dómara og saksóknara vísað frá

13.04.2021 - 17:49
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Nefnd um dómarastörf og eftirlitsnefnd með störfum lögreglu hafa vísað frá tveimur kvörtunum Samherja vegna annars vegar dómara við Héraðsdóm Reykjavíkur og hins vegar saksóknara hjá embætti héraðssaksóknara. Málið snerist um úrskurð héraðsdóms þar sem endurskoðunarfyrirtækinu KPMG var gert að afhenda embætti héraðssaksóknara upplýsingar og gögn um bókhald allra félaga fyrirtækja innan Samherjastæðunnar frá árunum 2011 til ársins 2020 vegna rannsóknar á Samherjaskjölunum svokölluðu.

Þær upplýsingar fengust frá nefnd um eftirlit með lögreglu að ekki hefði verið talið tilefni til frekari meðferðar en að athygli héraðssaksóknara hefði verið vakin á málinu.   „Nefndin afhendir ekki ákvarðanir í málum sem hafa verið til meðferðar og tjáir sig ekki að öðru leyti um efni þeirra.“

Í svari við fyrirspurn fréttastofu segir að nefndin hafi ekki eftirlit með störfum ákæruvalds nema það varði störf lögreglu.

Nefnd um dómarastörf afgreiddi kvörtun Samherja á fundi sínum í gær og birti niðurstöðuna á vef sínum í dag. 

Þar er bent á að kvörtun fyrirtækisins hafi snúist um dómsúrlausn héraðsdómara sem hægt var að bera undir æðri dóm  Var því ekki talið að kvörtunin heyrði undir valdsvið nefndarinnar og var henni því vísað frá.

Nefndin segir málsmeðferðina í fyrri úrskurði héraðsdómarans ekki hafa verið í samræmi við réttarfarsreglur og því verið ómerktur. Bætt hafi verið úr þeim réttarfarsannmörkum við síðari meðferð málsins með sömu niðurstöðu

Ingibjörg Þorsteinsdóttir,  dómarinn sem Samherji kvartað undan, sagði í athugasemdum sínum til nefndarinnar að misritun í þingbók hefði átt sér stað; annars vegar um dagsetningu úrskurðar og hins vegar um að gögn hafi legið frammi í dóminum. Þessi mistök væru á hennar ábyrgð því hún hafi ekki gætt þess að lesa nægilega vandlega yfir forskráð atriði í þingbók. 

Hún benti hins vegar á að kröfugerð héraðssaksóknara í málinu hefði verið ítarleg og þar verið vitnað orðrétt til ýmissa ganga.  Það hefði verið mat hennar í ljósi þessa og með hliðsjón af rökstuðningi saksóknara að lagaskilyrðum væri fullnægt og taka mætti kröfuna til greina. Landsréttur hefði verið því ósammála og ómerkt málsmeðferðina. Bætt hafi verið úr þessum annmörkum þegar málið var tekið fyrir öðru sinni.

Lögmaður Samherja mótmælti því að kvörtun Samherja yrði vísað frá. Taldi hann að ekki væri um dómsúrlausn að ræða heldur háttsemi og vanrækslu dómara.  Mikilvægt væri að hægt væri að kvarta undan óvandaðri málsmeðferð dómara til nefndar um dómarastörf.

Samherji fór býsna hörðum orðum um dómarann og saksóknarann í yfirlýsingu sem birtist á vef félagsins í febrúar.  Sagði fyrirtækið að vinnubrögð þeirra hefðu verið ótrúleg og þau hlytu að kalla á viðbrögð frá hagsmunasamtökum endurskoðenda og lögmanna.

Rannsókn héraðssaksóknara á máli Samherja stendur enn yfir og hafa sex fyrrverandi og núverandi starfsmenn fyrirtækisins réttarstöðu sakbornings. Rannsóknin snýr að ætluðum brotum á hegningarlagaákvæðum um múturgreiðslur til embættismanna og starfsmanna fyrirtækja, peningaþvætti og ákvæðum auðgunarbrotakafla hegningarlaga.