Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Hraunið fer ekki langar leiðir

Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði, segir að framleiðslan í gígunum á Reykjanesskaga sé að nálgast 15 rúmmetra á sekúndu. Hann telur að hraunið frá gosinu muni ekki renna langar leiðir. Nýju gígarnir sem spretta upp virðist vera viðbót. Kvikugangurinn, aðfærsluæð gossins, sé samfelld heild

Nálgast 15 rúmmetra

„Í kvikuganginum er jafn þrýstingur og pínulítill yfirþrýstingur. Frá upphafi gossins er búið að flæða um 15 rúmmetrar á sekúndu inn í ganginn. Við byrjuðum að taka út úr honum um 5 rúmmetra og síðan jókst það í 8 til 10 rúmmetra á sekúndu og þá voru samt fimm eftir til þess að ná jafnvægi,“ segir Þorvaldur. „Við erum farin að nálgast þessa 15 rúmmetra með nýju gígunum, að nálgast þetta jafnvægi. Að flæðið inn sé svipað því sem kemur út.“ Ef jafnvægi verði náð haldi gosið bara áfram að malla. „Ef innflæðið eykst þá er líklegt að sprungan fari að lengjast og stækka og gosið verður öflugra. Ef hins vegar innflæðið minnkar þá fer að draga úr gosinu og hætt við því að það stöðvist.“

Hann segir að hugsanlega sé kvikugangurinn stærri en talið hefur verið og að hann víkki niður á við. Það geti þýtt að það geti komi meira upp á yfirborðið og fleiri sprungur myndist.

Mynd með færslu
 Mynd: Arnar Páll Hauksson
Fjórði gígurinn í stuði

Hraunið fer ekki langt

Þeir sem hafa fylgst með og jafnvel farið að gosinu oftar en einu sinni sjá að breytingarnar á hrauninu eru talsverðar. Þorvaldur metur það svo að hraunið eigi ekki eftir að renna langar leiðir. 

„Ég held að hraunið muni halda áfram að byggja sig sjálft upp í næsta nágrenni við gígana. Ég held að fari ekki langar leiðir. Meðan þetta er svona lítið og hraunið er að skipa sér upp í marga ála þá fer þetta ekki mjög langt. Í raun stafli sér upp í kringum gígana og dreifist í mismunandi áttir. Þá muni hlaðast upp litlar dyngjur í kringum þessa gíga,“ segir Þorvaldur.

Hlusta má á vitalið við Þorvald í spilaranum hér að ofan.