Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hraun flæðir yfir gönguleið

Tvær myndir af brattasta kafla gönguleiðarinnar að eldgosinu. Myndir teknar 1. apríl 2021.
 Mynd: RÚV - Gísli Berg
Hraun úr nýju gígunum sem opnuðust á gosstöðvunum í Fagradalsfjalli í morgun flæðir nú yfir gönguleið A, sem er gönguleiðin sem fyrst var stikuð. Þrátt fyrir það hefur verið ákveðið að opna fyrir aðgang almennings að svæðinu klukkan tólf eins og stefnt var að.

Fjórir nýir gígar opnuðust á gosstöðvunum í morgun. Þrír þeirra eru á stuttri sprungu við hliðina á hrauntaumnum sem liggur frá nyrstu gígunum niður í Geldingadali. Þá hefur einn gígur opnast á milli þriðja og fjórða gígsins sem áður höfðu opnast. „Það er mikið hraunflæði þarna sem er að rúlla yfir gönguleið A,“ segir Hjálmar Hallgrímsson, vettvangsstjóri hjá lögreglunni á Suðurnesjum.

„Athyglisvert er að það virðist ekki hafa orðið nein augljós breyting á virkninni í gígunum sem voru fyrir. Það lítur út fyrir að þetta sé hrein viðbót,“ segir í færslu eldfjallafræði- og náttúruvárhóps Háskóla Íslands.

Eftir hádegi er útlit fyrir sunnan- og suðvestanátt nærri gosstöðvunum og þrjá til sex metra á sekúndu. Mengun frá eldgosinu berst því til norðurs yfir Vatnsleysuströnd og jafnvel einnig til norðausturs yfir höfuðborgarsvæðið.