Hold og andi hamast hvort í öðru og útkoman er þýðing

Mynd: - / Guðbergsstofa

Hold og andi hamast hvort í öðru og útkoman er þýðing

13.04.2021 - 14:50

Höfundar

Ljóðabók Guðbergs Bergssonar, Stígar, kom út á dögunum í spænskri þýðingu. „Þetta er ekki spænsk gerð og ekki íslensk, heldur er þetta andlegt samhengi,“ segir Guðbergur.

Þýðandi bókarinnar er Rafael García Perez og kemur hún út í tvímála útgáfu hjá útgáfufyrirtæki sem nefnist Hin kindin. „Það hefur verið voðalega gaman að þýða þetta með honum Rafa, þetta er mest honum að þakka og hann ber ábyrgð á þessu í lokagerðinni,“ segir Guðbergur. Rætt var við hann og Birnu Bjarnadóttur, útgefanda bókarinnar, í Víðsjá á Rás 1.

Ljóðabókin Stígar kom fyrst út árið 2001 og var þriðja ljóðabók Guðbergs. Þýðandanum kynntist hann í fyrst í París þar sem hann kenndi málvísindi við Sorbonne-háskóla. „Hann talar mjög góða íslensku. Það er eiginlega þannig að þýðingar úr íslenskum bókmenntum eru að færast yfir á spænsku. Það eru allmargir sem kunna íslensku þarna og margir sem tala hana mjög vel. Hann er að mínu áliti langfærastur að því leyti að hann skrifar, talar og skilur og hann er ansi mikið inni í íslenskum bókmenntum.“

Útgáfan er fjarri því einföld þýðing segir Guðbergur en hann og Rafael unnu að verkinu saman í gegnum tölvupóst. „Þetta er ansi mikil andleg leikfimi þegar tveir þýða, ég hef ekki sömu tök á spænsku og hann en ég þekki allvel spænska ljóðagerð og þess vegna gat ég oft bent honum á eitthvað í spænskri ljóðagerð sem myndi falla að því sem hann var að þýða úr íslensku. Þannig varð til nokkurs konar þýðingarlistgrein. Það er ekki hægt að segja að þetta sé beinlínis þýðing heldur er þetta viss endursköpun. Samt er ekki verið að færa þetta algjörlega yfir á spænsku og gera þetta spænskt, sem er eiginlega ekki hægt.“

Birna Bjarnadóttir skrifaði doktorsritgerð um fagurfræði í skáldskap Guðbergs sem heitir Holdið hemur andann. Hún segir Guðberg vera tilvistarskáld sem kortleggi svið við útmörk Evrópu og ferji um leið til okkar meginlandið.

Í samtali þeirra við Eirík Guðmundsson gat Guðbergur ekki setið á sér og skaut inn að hann gæti ekki verið samþykkur titli doktorsverkefnis Birnu. „Holdið er oft að hamast í andanum og andinn oft að hamast í hinu. Það má segja um þessa þýðingu að holdið og andinn hafi hamast hvort í öðru og niðurstaðan er þessi þýðing. Ég held að þetta sé verk sem ætti að vera notað í þýðingafræði. Þetta er dæmi um það hvernig listin er að þýða. Þetta er ekki spænsk gerð og ekki íslensk, heldur er þetta andlegt samhengi og ég held að niðurstaðan sé nokkuð góð.“

Rætt var við Guðberg Bergsson og Birnu Bjarnadóttur um tvímála útgáfu ljóðabókarinnar Stígar í Víðsjá á Rás 1.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Opinská bréf sambýlismanns Guðbergs gefin út á bók

Bókmenntir

Stórskáld evrópskra bókmennta fær sinn sess á Íslandi

Bókmenntir

Bilun er mjög góð í listum

Bókmenntir

„Hatrið er mikilvægt sem sköpunarkraftur“