Tilefni sýningarinnar er ný bók þar sem farið er yfir feril Spessa í máli og myndum. Spessi – Sigurþór Hallbjörnsson – hóf feril sinn sem blaðaljósmyndari á Pressunni áður en hann lærði ljósmyndun í listaskóla í Hollandi. Síðan þá hefur hann getið sér orð fyrir myndir af hvunndagshetjum, einmana bensíndælum og matarbökkum, beygluðum byltingarvopnum, blokkarbúum og listamönnum.
„Ég held að alveg frá byrjun hafi ég alltaf viljað dálítið ná inn á fólk, ég fékk mjög fljótlega áhuga á portretti og er svo eiginlega búinn að vera að gera það allar götur síðan.“
Það var hægara sagt en gert að koma ferli Spessa niður í eina sýningu því hann sýnir oftar en ekki í seríum, sem geta talið á annað hundrað mynda.
„Við ákváðum að kjarna stílbragð og persónueinkenni hans sem ljósmyndara,“ segir Linda Ásdísardóttir sýningarstjóri. „Hann vinnur svo mikið í þessu skráningarformi, langar seríur þar sem að gildi og vægi í verkinu felst oft í magni myndanna. Hann er mjög sérstakur ljósmyndari, hefur alveg sitt eigið stílbragð og þá bæði í því hvernig hann nálgast myndefnið sitt og hvernig hann myndar. Til dæmis þetta að fegra aldrei neitt, það var alveg afgerandi. Þegar ég vildi velja fallega mynd þá vildi Spessi „ljótari“ myndina, sem var þá sannari að hans mati.“