Hafa gert athugasemd við mat Alþjóðagjaldeyrissjóðsins

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Íslensk stjórnvöld hafa gert athugasemd við alþjóðlegan samanburð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) á umfangi beinna stuðningsaðgerða ríkja til að stemma stigu við efnahagsáhrifum kórónuveirufaraldursins. Fréttastofa greindi frá því í gær að beinn stuðningur væri einna minnstur hér á landi, samkvæmt nýju mati sjóðsins.

Á lista yfir þau ríki þar sem stuðningur hefur verið minnstur eru, ásamt Íslandi, Tyrkland, Albanía, Hvíta-Rússland, Svartfjallaland, Bosnía-Hersegóvína og Moldóva. Ríkin eiga það sameiginlegt að stuðningurinn er undir 2,5 prósentum af landsframleiðslu.

Segir mælikvarðana þrönga

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, spurði Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra um mat AGS í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í gær. Hún sagðist telja mælikvarðana byggja á þröngri afmörkun:

„En við höfum gert athugasemd við þetta mat Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og þau hafa til að mynda ekki tekið með í reikninginn fjárfestingarátak, framlög til námstækifæra, viðbótarhækkun atvinnuleysisbóta, styrki til rannsókna og þróunar o.s.frv., þannig að þessi mælikvarði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins virðist byggður á mjög þröngri afmörkun sem er reyndar því miður allt of algengt þegar um er að ræða til að mynda eðli fjárfestinga og við áttum ágætissamtal um einmitt í umræðum um fjármálaáætlun,“ sagði Katrín. Kjarninn vakti athygli á svari Katrínar í morgun. 

„Þurfti og þarf enn tvímælalaust meira“

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, krafði Katrínu svo um frekari svör: „Eins og kemur fram í frétt RÚV eru Tyrkland, Albanía, Hvíta-Rússland, Svartfjallaland, Bosnía og Hersegóvína og Moldóva einnig á þeim lista. Fram kom í máli hæstvirts forsætisráðherra að ýmis atriði hefðu ekki verið talin til í þessu áliti að mati ríkisstjórnarinnar en atriðin sem voru talin upp í fyrra andsvari bæta ekkert rosalega miklu við heildarupphæðina,“ sagði hann.

Hann furðaði sig á því að viðbrögð stjórnvalda hefðu ekki verið meiri í ljósi þess hversu umfangsmikil ferðaþjónustan var:  „Stærsta hrun í 100 ár, hefur verið sagt, en samt eru sértæk viðbrögð ekki meiri en raun ber vitni. Er það af því að ekki þurfti meiri viðbrögð? Voru viðbrögðin að skila þeim árangri að ekki þurfti meira? Nei, því að miðað við atvinnuleysistölurnar sem við sjáum þurfti og þarf enn þá tvímælalaust meira,“ sagði hann og benti á atvinnuleysistölur hér á landi: „Ég set ákveðið samasemmerki á milli fjárstuðnings yfirvalda, sem er eins lítill og raun ber vitni, og þessa mikla atvinnuleysis.“

Telur að stuðningurinn sé um 7,5 prósent

Í svari við fyrirspurn Björns Leví ítrekaði Katrín að hún teldi að AGS hefði ekki tekið allar aðgerðir stjórnvalda með í reikninginn og sagðist telja að ef allt hefði verið tekið með væri stuðningurinn í kringum 7,5 prósent af landsframleiðslu. Hún minnti svo á að sjálfvirkir sveiflujafnarar væru ekki teknir með í samanburðinn og sagði að því væri samanburður í sumum tilfellum tilgangslítill. 

Sjálfvirkir sveiflujafnarar eru þau viðbrögð ríkissjóðs sem fara sjálfkrafa af stað þegar harðnar í ári, án þess að teknar séu um það nokkrar ákvarðanir; greiðsla atvinnuleysisbóta færist í aukana og tekjur ríkissjóðs dragast saman vegna minni landsframleiðslu. Að því er kemur fram í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar hafa áhrif sjálfvirkra sveiflujafnara í kórónuveirukreppunni hér á landi verið á pari við áhrifin víða í Vestur-Evrópu. 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV