Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Gasmengun berst yfir Vatnsleysuströnd

13.04.2021 - 07:08
Mynd með færslu
Sveitarfélagið Vogar. Mynd úr safni. Mynd: Dagný Hulda Erlendsdóttir - RÚV
Veðurstofan spáir sunnan og suðvestan 3 til 8 metrum á sekúndu í dag, en 8 til 13 um landið norðvestanvert. Skýjað að mestu og skúrir á víð og dreif en léttskýjað norðaustan- og austanlands. Síðan hvessir dálítið á morgun með vætu á svipuðum slóðum og í dag en áfram verður bjart veður fyrir norðan og austan. Milt veður og hiti á bilinu 5 til 10 stig.

Við gosstöðvarnar í Geldingadölum er spáð sunnan 3 til 8 metrum á sekúndu og gert er ráð fyrir að gasmengunin berist til norðurs yfir Vatnsleysuströnd og gæti þar náð styrk sem er óhollur fyrir viðkvæma.

Gasmengun við gosstöðvarnar getur alltaf farið yfir hættumörk og því þarf að velja gönguleið eftir vindaspá hverju sinni.