Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

G7 ríkin biðja Rússa um að hætta að ögra Úkraínu

13.04.2021 - 02:58
epa09124886 A handout photo made available by the Ukrainian Presidential Press Service shows Ukraine's President Volodymyr Zelensky (L) on his working visit to the eastern Ukrainian conflict zone, 09 April 2021. 'Ukraine does not want a new hot war with Russia, but is ready to defend itself in a case of a military attack', Ukrainian Foreign minister Dmytro Kuleba said in an exclusive interview with EFE-EPA earlier in the day. Kuleba blamed Russia for the biggest military buildup at Ukraine's border since 2014 and said this was an attempt to intimidate Ukraine.  EPA-EFE/PRESIDENTIAL PRESS SERVICE / HANDOUT  HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA-EFE - PRESIDENTIAL PRESS SERVICE
Utanríkisráðherrar G7 ríkjanna kalla eftir því að Rússar hætti að ögra Úkraínu og dragi úr spennu á milli ríkjanna. AFP fréttastofan greinir frá þessu. Rússneski herinn hefur fjölgað í herliði sínu við landamærin að Úkraínu undanfarið. 

Yfirlýsing ráðherranna var birt að loknum fundi NATO ríkja í Brussel í gærkvöld. Þar lýstu aðildarríkin áhyggjum yfir því að skyndilega sjóði upp úr eftir áralöng átök í austanverðri Úkraínu. Þar hafa aðskilnaðarsinnar hliðhollir Rússum farið mikinn undanfarið.

G7 utanríkisáðherrarnir segja í sameiginlegri yfirlýsingu sinni að stórfelldar tilfærslur herdeilda án fyrirvara séu ógnandi tilburðir. Því kalli þeir eftir því að Rússar láti af ögrunum sínum og dragi nú þegar úr spennu. Eins er rússneskum stjórnvöldum bent á skuldbindingar hennar um gegnsæi varðandi hernaðartilfærslur.

Í síðasta mánuði tilkynntu G7 ríkin að þau viðurkenni ekki innlimun Rússa á Krímskaga frá Úkraínu. Skömmu eftir innlimunina fyrir sjö árum gerðu aðskilnaðarsinnar í austanverðri Úkraínu sig breiða, og hófu átök við úkraínska herinn. Yfir 13 þúsund hafa fallið í átökunum síðan þá samkvæmt heimildum Sameinuðu þjóðanna. 

Stjórnvöld í Kreml neita því ekki að hafa aukið herafla sinn við landamærin að Úkraínu. Þau segjast þó ekki vera að ógna neinum.