Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Faraldurinn ekki lengur fyrirstaða brottvísana

13.04.2021 - 19:00
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - rúv
Þrjátíu og þremur, sem óskað hafa eftir alþjóðlegri vernd hér á landi, hefur verið vísað til Grikklands á árinu, eftir að hlé var gert á brottvísunum þangað vegna heimsfaraldurs. Sviðsstjóri hjá Útlendingastofnun segir faraldurinn ekki lengur standa í vegi fyrir brottvísunum. 

„Sem stendur hafa 6 einstaklingar verið fluttir til Grikklands. Og það eru 27 einstaklingar sem hafa fengið endanlega niðurstöðu frá kærunefnd Útlendingamála og bíða framkvæmdar hjá stoðdeild ríkislögreglustjóra,“ segir Þorsteinn Gunnarsson, sviðsstjóri hjá Útlendingastofnun. 

Ekki uppi jafn mikil óvissa

Útlendingastofnun ákvað síðasta vor að hætta tímabundið að vísa flóttafólki til Grikklands vegna mikillar óvissu sem ríkti vegna kórónuveirufaraldursins, og fleiri fengu efnislega meðferð. Síðasta haust var sú ákvörðun endurskoðuð, að sögn Þorsteins.

„Þá eru náttúrulega komnar meiri upplýsingar um stöðu og framgang faraldursins innan ríkjanna. Og í kjölfarið á því eru teknar ákvarðanir, þar sem covid er ekki talið standa í vegi fyrir því að fólk sé sent til baka. Og svo núna undir áramót er orðið ljóst að bólusetningar eru að hefjast alls staðar í Evrópu. Þannig að því leytinu til eru aðstæður nokkuð svipaðar þar og hér,“ segir hann.

Segir forsvaranlegt að vísa fólki til Grikklands

Brottvísanirnar hafa verið gagnrýndar. Í viðtali við Fréttablaðið benti talsmaður umsækjenda um alþjóðlega vernd hjá Rauða krossinum meðal annars á að aðstæður í Grikklandi væru í raun verri nú en þegar hlé var gert á brottvísunum. Sextán hundruð smit greindust í Grikklandi í dag, þó talsvert færri en undanfarna daga. Næstum níu þúsund hafa látist úr veirunni þar í landi. 

„Finnst Útlendingastofnun forsvaranlegt að senda fólk til Grikklands á meðan ástandið er svona? Við tökum ekki ákvarðanir um að senda fólk annað en þangað sem okkur þykir það vera forsvaranlegt. Og það fer fram, eins og ég segi enn og aftur, mat á aðstæðum einstaklingsins og hvernig þær aðstæður yrðu í því ríki sem hann fer til. Ef við erum þeirrar skoðunar að það sé ekki forsvaranlegt að senda einhvern til baka, þá sendum við hann ekki til baka,“ segir Þorsteinn. 

Ákvarðanir Útlendingastofnunar séu þó ekki hafnar yfir gagnrýni.

„En á bakvið þessar ákvarðanir okkar, og úrskurði kærunefndar, liggur mikil vinna. Og niðurstaðan er augljóslega sú að einhverjir fá að vera. En það eru líka einhverjir sem þurfa að snúa til baka. Og þangað erum við komin í þessu ferli núna,“ segir Þorsteinn.