Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Endurskoðar tillögur ef smitum fjölgar á næstu dögum

Mynd með færslu
 Mynd: Ljósmynd/Almannavarnir
Sóttvarnalæknir segir það töluvert áhyggjuefni að þrír hafi greinst með COVID-19 utan sóttkvíar í gær. Ef smitum fjölgi á næstu dögum kunni hann að endurskoða tillögur sínar um tilslakanir, sem búist er við að taki gildi á föstudag.

„Já, þetta er áhyggjuefni. Sérstaklega þegar við sjáum að þetta er á mismunandi stöðum, á Vesturlandi, Suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu. Rakning er í gangi og svo á eftir að koma niðurstaða úr raðgreiningu. Þetta segir manni að veiran er þarna úti og dúkkar upp hér og þar og það er áhyggjuefni,“ segir Þórólfur Guðnason, og að það hjálpi ekki að smitin virðist algjörlega ótengd.

Takmarkanir hafa haldið útbreiðslu í skefjum

Teljiði ykkur hafa stjórn á ástandinu?

„Já, það hafa ekki verið neitt mörg tilfelli undanfarið, en þetta hefur svona verið hér og þar. Ég held að það hafi haldist svona vel niðri vegna þess að við erum með þessar takmarkanir í gangi og það eru mikil takmörk á samgangi fólks og umgengi og það kemur í veg fyrir að þetta nái að blossa út. En ef það fer úr skorðum getum við fengið meiri útbreiðslu,“ segir Þórólfur.

Þessar nýju tölur, hafa þær þá áhrif á áætlanir um tilslakanir?

„Það er bara góð spurning. Mér finnst þessar tölur vera ákveðið áhyggjuefni. Ég er búinn að skila mínum tillögum til ráðherra, ég gerði það í gær, og var nú ekki með neinn fyrirvara í þeim í þetta sinn, en er nú gjarnan með það. En vissulega, ef við förum að sjá miklu fleiri í dag og á morgun, og reglugerðin á að taka gildi á föstudaginn, þá gæti alveg farið svo að ég þurfi að henda inn nýjum tillögum,“ segir hann.

„Veiran er þarna úti og við erum með nokkrar ólíkar tegundir af þessu breska afbrigði í gangi sem hefur komist hérna yfir landamærin. Þannig að það er bara spurning hversu mikið þessar mismunandi tegundir ná útbreiðslu og ná að festa sig í sessi. Það er stóra spurningin sem maður veit aldrei fyrirfram.“
 

 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV
johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV