Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Biden vill fund með Pútín

13.04.2021 - 17:08
Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV
Joe Biden, Bandaríkjaforseti, hvatti Rússa í dag til að minnka spennu við landamæri Rússlands að Úkraínu. Biden ræddi við Vladimír Pútín, Rússlandsforseta og lagði til að þeir myndu hittast á fundi á næstunni. 

Spennan í austurhluta Úkraínu, við landamærin að Rússlandi hefur magnast síðustu daga. Rússar hafa flutt þúsundir hermanna og hergögn að landamærunum. Hluti héraðsins Donbass í Austur-Úkraínu er á valdi aðskilnaðarsinna sem njóta stuðnings Rússa. Biden og Pútín ræddu saman í síma í dag og lýsti sá fyrrnefndi yfir þungum áhyggjum af stöðu mála. Biden hvatti Pútín til að draga úr hernaðarviðbúnaði, bæði á Krímskaga sem Rússar innlimuðu árið 2014 og eins við landamærin að Úkraínu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Hvíta húsinu. 

Þar segir einnig að Biden hafi stungið upp á við Pútín að þeir hittust á leiðtogafundi á næstu mánuðum, sem hvorki yrði í Rússlandi né í Bandaríkjunum, heldur í einhverju öðru landi. Þar gætu þeir rætt ýmis málefni varðandi samskipti ríkjanna. Ef af verður yrði það fyrsti fundur þeirra eftir að Biden tók við völdum í janúar. 

Rússar hafa lýst því yfir að Úkraínuher og Atlantshafsbandalagið hafi sýnt af sér ógnandi hegðun á svæðinu. Tilkynnt var í vikunni að Bandaríkin myndu senda tvö herskip á Svartahaf til stuðnings Úkraínumönnum og eins hringdi Angela Merkel í Pútín á dögunum til að hvetja hann til að draga úr viðbúnaði við landamærin.