Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Vonar að sumarstörf gagnist námsmönnum

12.04.2021 - 16:17
Isabel Alejandra Diaz forseti Stúdentaráðs.
 Mynd: - - RÚV
Isabel Alejandra Diaz, forseti Stúdentaráðs, fagnar áformum stjórnvalda um að verja á þriðja milljarð króna til að bjóða námsmönnum á framhaldskóla- og háskólastigi sumarstörf og sumarnámskeið. Útfærslan liggur þó ekki alveg fyrir og Isabel segir að þetta komi heldur seint fram.

Í gegnum faraldurinn hafi forystumenn stúdenta lagt mikla áherslu á að aðgerðirnar eða lausnirnar verði að vera til lengri tíma. Sumarstarf geti samt falið í sér tækifæri þannig að störfin sem bjóðist eigi vonandi við það sem þeir eru að læra í skólanum.

Störfin hentuðu ekki öllum

Í fyrra var ekki ráðið í nokkur hundruð störf, sem voru auglýst í sams konar verkefni. Þá var bara ráðið til tveggja mánaða og það var of stutt, segir Isabel sem hefði kosið að störfin væru til þriggja mánaða. Ráða á í tvo og hálfan mánuð í ár. Í fyrra voru störfin auglýst í lok maí og það var fullseint, þá t um 16% stúdenta vera atvinnulaus þegar kom fram í júní í könnu sem gerð var á vegum Stúdentaráðs. Eitthvað var um það í fyrra að störfin breyttust frá því sem auglýst var.  Þess voru dæmi að stúdent væri boðið starf en það svo dregið til baka þegar til kom og þá stóð hann uppi allslaus segir Isabel, ákvað jafnvel þá að fara frekar í sumarnám en vera áfram í óvissu. Hópurinn er stór og fjölbreyttur og störfin henta kannski ekki alltaf öllum. Hún bindur vonir við að þetta takist vel í sumar.

Styttist í að störf verði auglýst

Á Vinnumálastofnun er nú unnið að því að hafa samband við sveitarfélög, stofnanir og félagasamtök sem geta fengið styrk til að ráða námsmenn. Allt kapp er lagt á að það gangi hratt fyrir sig. Þeir sem ætla að ráða auglýsa svo stöðurnar og ráða námsmennina en fá svo styrkinn greiddan frá Vinnumálastofnun eftir á. Hjá Vinnumálastofnun vona menn líka að vel takist til, í fyrra var stefnt að um 3.000 störfum en nú 2.500. Ráðningartímabilið hefur verið lengt og greiðslurnar geta orðið hærri en var í fyrra.