Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Verslanir, barir og líkamsrækt opnuð á ný í Bretlandi

12.04.2021 - 19:02
epa09124751 A store assistant prepares a display of clothes in a shop in London, Britain, 09 April 2021. On 12 April 2021, pubs and restaurants serving outside can reopen along with non-essential shops, gyms and hairdressers, as England's lockdown is further eased.  EPA-EFE/NEIL HALL
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Barir, verslanir, líkamsræktarstöðvar og önnur þjónusta hófu starfsemi í Bretlandi í morgun eftir þriggja mánaða lokun vegna Covid nítján faraldursins. Bretar eru bjartsýnir á að ekki þurfi að grípa til víðtækra lokana aftur.

Afléttingarnar tóku gildi á miðnætti og voru margir barir opnaðir strax fyrir þá sem var farið að þyrsta mikið í stemninguna. Þeir voru nokkuð margir þrátt fyrir vinnudag daginn eftir. 

„Ég held að aðalmálið sé að vera í kringum fólk, að geta sest niður og slakað á, verið saman. Við söknuðum þess mest,“ sagði einn af bargestunum í Bexleyheath.

Aðeins er þó leyfilegt að sitja utandyra.

Þá kemst fólk í líkamsræktarstöð og sundlaug í fyrsta sinn í þrjá mánuði, sem og í hárgreiðslu. Verslanaþyrstir Bretar hópuðust einnig að verslunum sem voru opnaðar í morgun og mynduðust þar langar raðir.

Dýragarðurinn í London var líka opnaður eftir þriggja mánaða lokun, með miklum takmörkunum þá. „Hér eru fjarlægðarviðmið um allan garð, kurteisleg loppuför sem minna á tveggja metra regluna. Við hleypum enn bara takmörkuðum fjölda inn til að öllum finnist þau örugg,“ segir Kathryn England, aðgerðarstjóri dýragarðsins.

Bretum hefur gengið vel að hefta útbreiðslu veirunnar. Í gær létust sjö af völdum veirunnar og hafa ekki verið jafn fáir síðan um miðjan september. Næstu afléttingar eru fyrirhugaðar eftir fimm vikur, ef allt gengur vel. Og Nicholas Hair, bareigandi, er bjartsýnn á það.  „Ég held að það versta sé afstaðið. Vonandi verður þetta eins og endurfæðing og að nú verði opið áfram.“

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV