Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Vara við að glæpasamtökum vaxi ásmegin í faraldrinum

Mynd með færslu
Höfuðstöðvar Europol í Haag í Hollandi. Mynd: EPA - ANP
Afleiðinga faraldursins á skipulagða glæpastarfsemi gæti orðið vart árum saman í Evrópu, að því er varað er við í nýrri skýrslu Europol sem kom út í dag. Þar segir að í álfunni sé í dag meira magn af kókaíni en nokkru sinni fyrr.

Europol gefur út skýrslu sem þessa á fjögurra ára fresti þar sem lagt er mat á hættuna sem stafar af skipulagri glæpastarfsemi næstu árin. Þar segir að líklegt sé að glæpasamtök eigi eftir að færa sér í nyt löglega starfsemi sem hafi farið illa í kórónuveirufaraldrinum til peningaþvættis. Þetta sé nú þegar helsta leið glæpasamtaka í Evrópu sem fremji alvarlega og skipulagða glæpi. Þá segir í skýrslunni að tveir þriðju hlutar glæpasamtaka í álfunni komi reglulega að spillingu í þeim samfélögum þar sem þau láti til sín taka. Áttatíu prósent glæpahópanna nýti sér starfsemi fyrirtækja sem einnig séu með löglega starfsemi. 

Bjóða fölsuð bóluefni til sölu

Töluvert er um að glæpamenn bjóði til sölu fölsuð bóluefni og búnað til að skima fyrir veirunni heima, segir í skýrslunni. Í upphafi faraldursins hafi það frekar verið grímur og handspritt sem glæpasamtökin reyndu að hagnast á en það hafi breyst í takti við tímann. 

AFP fréttaveitan hefur eftir framkvæmdastjóra Europol, Catherine De Bolle, að komið sé að ögurstund. Áhrif faraldursins á líf almennra borgara, á efnahaginn og á réttarríki séu of mikil.

Mikið ofbeldi fylgir fíkniefnaviðskiptum

Svo virðist sem aldrei hafi eins mikið af kókaíni verið flutt til Evrópu frá Suður-Ameríku og nú og á því hagnast glæpamenn bæði í Evrópu og þar, segir í skýrslunni. Lögregla hefur lagt hald á mikið magn af kókaíni í stærstu höfnum Evrópu á árinu, svo sem í Antwerpen, Hamborg og Rotterdam. Saman lagði lögregla í Hollandi og Þýskalandi hald á tuttugu og þrjú tonn af kókaíni í febrúar. Þessum umsvifum fylgir mikið ofbeldi þar sem glæpamenn hika ekki við að beita byssum, handsprengjum og pyntingum, segir framkvæmdastjórinn. „Glæpamenn myrða saklaust fólk, blaðamenn og lögmenn í beinum árásum á lýðræðið,“ segir innanríkismálastjóri Evrópusambandsins, Ylva Johansson, í Lissabon í dag þegar skýrslan kom út.