Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Söder og Laschet vilja verða kanslaraefni íhaldsmanna

12.04.2021 - 03:17
epa09128834 State Premier of North Rhine-Westphalia and Christian Democratic Union (CDU) party chairman Armin Laschet (L) and State Premier of Bavaria and Christian Social Union (CSU) chairman Markus Soeder (R) pose after a joint press conference on the occasion of a closed door faction meeting of CDU and CSU in Berlin, Germany, 11 April 2021. The joint faction of Christin Democratic Party and Christian Social Union (CDU/CSU) met on Sunday for a closed-door session.  EPA-EFE/CLEMENS BILAN / POOL
 Mynd: EPA
Markus Söder, leiðtogi CSU, systurflokks Kristilegra demókrata í Bæjaralandi, og sambandsríkisstjóri Bæjaralands, gefur kost á sér sem kanslaraefni íhaldsflokkanna fyrir þýsku kosningarnar í haust. Armin Laschet, sem nýlega var kjörinn formaður Kristilegra demókrata, hefur þegar gefið kost á sér. Hann er jafnframt sambandsríkisstjóri í Norður Rín-Vestfalíu.

Flokksstjórnir Kristilegra demókrata og CSU komu saman til fundar í gær. Þar átti einmitt að ræða hvert kanslaraefni flokkanna á að verða. Að sögn fréttastofu BBC er búist við því að það verði tilkynnt á næstunni.

Þeir Laschet og Söder héldu sameiginlegan blaðamannafund í gær. Laschet sagði þá Söder hafa átt langt samtal, og þeir séu báðir reiðubúnir að verða kanslaraefni flokksins. Söder bætti því við að þeir væru báðir vel til embættisins fallnir. Það væri mikilvægt að þeir bæru virðingu hvor fyrir öðrum, og samstarfið eigi eftir að verða farsælt sama hvor þeirra verður valinn. Þetta snúist ekki um þá sem einstaklinga, heldur hag flokksins og umfram allt hag þjóðarinnar.

Yfirleitt fellur það í skaut leiðtoga Kristilegra demókrata að leiða flokkana til kosninga. Kannanir hafa hins vegar sýnt að Söder höfði betur til kjósenda. Tvisvar hefur leiðtogi CSU orðið kanslaraefni flokkanna, árin 1980 og 2002. Í bæði skiptin hafa Kristilegir demókratar og CSU tapað kosningunum.
Angela Merkel, fráfarandi kanslari, hefur ekki gefið út hvort leiðtogaefnanna hún styður.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV