Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ráðast í bráðabirgðaviðgerð á varðskipinu Tý

12.04.2021 - 19:47
Mynd: Grímur Jón Sigurðsson / RÚV
Ákveðið hefur verið að gera við varðskipið Tý til bráðabirgða, svo fleiri en eitt varðskip verði til taks á Íslandsmiðum á næstu mánuðum. Áætlaður kostnaður við viðgerðina nemur 60 milljónum króna.

Varðskipið Týr er orðið 46 ára gamalt, en það er afar sögufrægt og kom meðal annars við sögu í Þorskastríðinu, þegar breska freigátan Falmouth sigldi á skipið og laskaði það verulega.

Í janúar kom í ljós að skipið þyrfti á umfangsmiklum viðgerðum að halda og var ekki talið svara kostnaði að ráðast í þær. Því hefur verið ákveðið að kaupa nýtt varðskip í flota Landhelgisgæslunnar, í stað Týs, og er von á því í haust. Á meðan Týr er bilaður hefur Landhelgisgæslan aðeins eitt skip til taks, varðskipið Þór.

„Og það segir sig sjálft að það er ekki hægt að keyra á einu varðskipi endalaust. Og þess vegna var ákveðið að ráðast í bráðabirgðaviðgerð á varðskipinu Tý þar til varðskipið Freyja kemur til landsins,“ segir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar.

Stjórnvöld ákveða framhaldið

Týr verður því tekinn aftur í slipp í lok þessa mánaðar, og gerður sjófær. Áætlaður kostnaður við viðgerðina er um 60 milljónir. Ásgeir segir að kaup á nýju varðskipi verði líklega boðin út í þessari viku, og mikilvægt sé að það skip verði komið hingað til lands fyrir næsta vetur.

Og þarf Þór svo ekki að fara í slipp líka?

„Jú. Það passar, það er gert ráð fyrir því á þessu ári að Þór fari í slipp, og þess þá heldur, þá var sérstaklega mikilvægt að ráðast í þessa bráðabirgðaviðgerð. Og það er aldrei vitað sérstaklega hvenær koma upp óvæntar bilanir. Og við gætum auðvitað lent í því að Þór sem er núna eitt til taks myndi bila og þá hefðum við ekkert varðskip.“

En Týr verður sem sagt klár ef kallið kemur?

„Já það er gert ráð fyrir því að Týr verði klár og muni sinna eftirliti á Íslandsmiðum frá maí.“

Hvað verður svo um Tý þegar Freyja kemur?

Það liggur fyrir söluheimild á Tý en það er auðvitað stjórnvalda að ákveða með framhaldið,“ segir Ásgeir.