Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Píeta samtökin opna á Akureyri í sumar

12.04.2021 - 09:30
Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Svan - RÚV
Píeta samtökin opna útibú á Akureyri í sumar, það fyrsta utan höfuðborgarsvæðisins. Forstöðumaður segir mikla eftirspurn á landsbyggðinni eftir aðstoð vegna sjálfsvígshugsana.

„Við trúum ekki heldur að biðlista"

Píeta eru forvarnarsamtök gegn sjálfsvígum og sjálfskaða sem hafa rekið starfsstöð í Reykjavík í þrjú ár. Samtökin bjóða fólki sem glímir við sjálfsvígshugsanir ókeypis aðstoð frá fagfólki. Birgir Örn Steinarsson sálfræðingur verður forstöðumaður samtakanna á Akureyri. 

„Við bjóðum upp á fría sálfræðiþjónustu eða meðferð fyrir þá sem eru mjög þungir og vilja deyja eða eru með sjálfsvígshugsanir eða þá sem eru í sjálfsskaða. Þetta hefur oft verið eitthvað sem fólk getur ekki leyft sér, þetta hefur verið svolítil fríðindi að geta komist í svona og það er eitthvað sem við trúum ekki á og við trúum ekki heldur að biðlista þannig að við viljum bara að fólk leiti til okkar og rétta því fram hjálparhönd," segir Birgir.

Rekstur tryggður næstu 12 mánuði

Samtökin eru alfarið rekin á styrkjum og með þeim hefur tekist að fjármagna reksturinn á Akureyri næstu tólf mánuði. 

„Það er nú buið að vera á stefnuskrá Pietasamtakanna frá upphafi að opna í öllum landsfjórðungum og það var búið að vera mikið um það að eftir að við opnuðum Píeta símann sem er opinn allan sólarhringinn þá byrjuðum við að taka eftir því að mikið af fólki úti á landi hefur verið hringja inn til okkar og það hefur verið erfiðara að þjónusta það."