Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Óholl loftgæði á vestanverðum Reykjanesskaga í dag

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Gasmengun berst líklega yfir vestanverðan Reykjanesskaga, yfir svæðið frá Vogum og vestur að Höfnum í dag og í kvöld. Búist er við austan og suðaustan átta til þrettán metrum á sekúndu við gosstöðvarnar í dag, lítils háttar rigningu eða slyddu öðru hvoru og hita á bilinu núll til fimm stig.

Seint í kvöld verður örlítið hægari suðaustanátt, fimm til tíu metrar á sekúndu. Líkur eru á að loftgæði á vestanverðum Reykjanesskaga verði óholl fyrir viðkvæma. 

Gasmengun við gosstöðvarnar og í byggð getur alltaf farið yfir hættumörk. Fólk er því hvatt til að fylgjast náið með loftgæðamælingum á vefjum Umhverfisstofnunar og Veðurstofu Íslands.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV