Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Ný þjóðaratkvæðagreiðsla líkleg vinni Þjóðarflokkurinn

12.04.2021 - 06:33
epa07747764 Prime Minister Boris Johnson (L) meets with Scotlands First Minister Nicola Sturgeon at Bute House, Edinburgh, 29 July 2019.  EPA-EFE/Stewart Attwood
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, ætlar ekki að standa í vegi þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skotlands ef Skoski þjóðarflokkurinn hlýtur meirihluta í kosningum næsta mánaðar. Þetta fullyrðir Nicola Sturgeon, leiðtogi flokksins, í viðtali við Guardian í gær. 

Kannanir sýna sterka stöðu Þjóðarflokksins fyrir kosningarnar 6. maí. Miðað við tvær kannanir sem gerðar voru í síðustu viku nær flokkurinn hreinum meirihluta, og þar með valdastöðu fjórða kjörtímabilið í röð. Sturgeon, sem er fyrsti ráðherra skosku heimastjórnarinnar, segist ekki hafa trú á því að stjórnvöld komi í veg fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu ef flokkur hennar fær meirihluta. Breska stjórnin geti ekki komið þannig fram við kjósendur flokks sem er með það efst á sinni stefnuskrá.

Guardian hefur eftir heimildamönnum sínum innan bresku stjórnarinnar að hörð andstaða sé gegn því að leyfa Skotum að kjósa um sjálfstæði. Það væri þó illmögulegt að koma í veg fyrir það fagni Þjóðarflokkurinn sigri. Þá eru þeir sagðir telja að best væri fyrir Johnson að þrýsta á þjóðaratkvæðagreiðslu um það leyti sem efnahagurinn rýkur upp eftir kórónuveirufaraldurinn. Þá gæti hann undirstrikað áhættuna sem fylgi því að Skotar yfirgefi Bretland.

Niðurstöður könnunar sem birtar voru í Sunday Times benda til þess að jafn margir Skotar séu hlynntir sjálfstæði og eru andvígir því. 44% svarenda könnunarinnar voru hlynntir, og sama hlutfall andvígir. Það verður því að líkindum hart barist um þau 12% sem eru óákveðin.

Rúm 55% Skota sögðu nei við því að verða sjálfstætt ríki í kosningum haustið 2014. Sturgeon telur forsendur allt aðrar nú en voru fyrir sjö árum, sérstaklega í ljósi Brexit. Hún segist vita af mörgum sem vildu ekki sjálfstæði árið 2014, en séu nú mun opnari fyrir því.