Níu mánaða fangelsi fyrir að skjóta að mönnum

Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi karlmann í dag í níu mánaða fangelsi. Maðurinn var sakfelldur fyrir að skjóta í átt að tveimur mönnum við heimili hans og fyrir vörslu fíkniefna. Maðurinn var handtekinn í mars 2019 eftir að hann skaut fjórum skotum úr skammbyssu út um glugga sinn. Þar voru tveir menn sem komið höfðu að húsinu skömmu áður og látið ófriðlega.

Maðurinn játaði að hafa skotið út um glugga sinn en neitaði því að hann hefði miðað í átt að mönnunum. Þvert á móti sagðist hann hafa skotið í átt frá mönnunum. Maðurinn sagðist hafa keypt byssuna tveimur dögum áður til að verja sig og fjölskyldu sína eftir að hafa sætt hótunum frá öðrum mannanna. Maðurinn var ekki með skotvopnaleyfi.

Í myndbandsupptöku sem náðist af atvikinu má sjá tvo menn koma að húsinu og kasta hlutum í eða að húsinu. Þeir virtust láta dólgslega og sparka í bíla. Sjö mínútum síðar sáust menninir taka viðbragð og hlaupa í skjól. Ein kúlan sem maðurinn skaut fór í gegnum afturrúðu BMW bíls sem annar maðurinn skýldi sér á bak við. Þar með þótti dómara sannað að maðurinn hefði skotið einu sinni í átt að mönnunum tveimur en ósannað þótti að hann hefði beint hinum skotunum þremur í átt að mönnunum. 

Maðurinn var einnig dæmdur fyrir vörslu fíkniefna, svo sem 215 gramma af amfetamíni og 27 gramma af kókaíni.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV