Nísti í hjartað að sjá Sódómu plastaða við pylsupakka

Mynd: Sódóma Reykjavík / RÚV

Nísti í hjartað að sjá Sódómu plastaða við pylsupakka

12.04.2021 - 11:33

Höfundar

„Ég gleymi aldrei augnablikinu þegar ég labba inn í einhverja búð og rek augun í myndina mína hélaða ofan í frysti,“ segir Óskar Jónasson leikstjóri. Það sem í fyrstu virtist smánarleg meðferð á költmyndinni Sódómu Reykjavík varð til happs.

„Ég fór í einhverja svona handrits-sumarbústaðarferð um hávetur upp í Skorradal sem var á kafi í snjó, sitjandi inni í lítilli kompu, ískrandi af hlátri yfir kyndiklefasenunni,“ segir Óskar Jónasson leikstjóri og handritshöfundur Sódómu Reykjavíkur. Fjallað er um myndina í þáttunum Ísland: Bíóland en hún er einnig aðgengileg í spilara RÚV.

Á fyrstu árum tíunda áratugarins komu í fyrsta sinn fram íslenskar kvikmyndir sem beint var að ungu fólki og lögðu áherslu á borgarmenningu og næturlíf. Sódóma var þar á meðal. Myndin gerist á tæpum sólarhring og hangir á örmjóum þræði sem snýst um leit að sjónvarpsfjarstýringu móður Axels, sem Björn Jörundur Friðbjörnsson leikur. Úr verður æsilegur og geysilega uppátækjasamur farsi þar sem vaðið er á súðum af fítonskrafti og mikilli sannfæringu. Sódóma Reykjavík er ótvíræð költmynd og hefur að geyma fjöldann af ógleymanlegum tilsvörum og atriðum, þar á meðal kyndiklefasenuna sem Óskar vísar til.

Þegar Óskari var neitað um styrk frá Kvikmyndasjóði Íslands einsetti hann sér að skrifa allt sem honum dytti í hug og sjá hvað gerðist. „Ég ætla bara að skrifa allt það rugl sem poppar upp í hausinn á mér inn í þetta handrit og hún verður bara framleidd einhvern veginn öðruvísi. Þá byrjaði ég að ganga miklu lengra en ég hafði gert í skrifunum. Einhverra hluta vegna gleymi ég aldrei þessu augnabliki þar sem ég er að skrifa: „Af hverju ertu svona blá? Ertu dáin? Það skiptir ekki máli.“ Ég einhvern veginn vissi að þarna var ég að ganga of langt en mér fannst það svo fyndið, ég varð að setja það inn,“ segir Óskar.

Mynd með færslu
 Mynd: Sódóma Reykjavík - RÚV
Brjánsi sýra býr sig undir ástaratlot í kyndiklefanum í Sódómu Reykjavík.

Sódóma Reykjavík fékk góðar viðtökur í bíó en hlaut loks klassískan sess meðal landsmanna þegar VHS spólan fylgdi pylsu-pökkum á tilboði í verslunum.

„Ég gleymi aldrei augnablikinu þegar ég er að labba inn í einhverja búð og rek augun í myndina mína hélaða ofan í frysti. Það var skelfilegt. Það nísti hjarta mitt að sjá hana í þessu ástandi, búið að plasta hana við pylsupakka. En þetta var gæfusporið eftir á að hyggja því allt í einu eignuðust öll heimili myndina.“

Sódóma Reykjavík er aðgengileg í spilara RÚV til 10. júlí.

 

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Var Ágirnd fyrsta íslenska költmyndin?

Kvikmyndir

Kvikmyndasaga Íslands rakin í nýrri þáttaröð