Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Má heita Kvikan og Karlynja en ekki Tatiana

12.04.2021 - 16:55
Mynd með færslu
 Mynd: Unsplash
Kvikan, Karlynja, Vetur, Emill og Róm eru meðal nafna sem mannanafnanefnd hefur lagt blessun sína yfir á síðustu dögum. Öll sem eiginnöfn nema nafnið Kvikan, sem er samþykkt sem millinafn.

Nú má líka heita Arkíta, Janey, Imma, Myrktýr, Arman, Sædóra og Bryn, og Draumland hefur verið samþykkt sem millinafn. 

Nöfnunum Tatiana og Tatyana var hafnað af nefndinni á þeim grundvelli að þau væru ekki í samræmi við almennar ritreglur íslensk máls, þar sem stafasamböndin -ia- og -ya- væru ekki til í ósamsettum orðum. Þá væri heldur ekki hægt að segja að nöfnin hefðu unnið sér hefð í íslensku máli, til dæmis með því að nógu margar konur bæru þau. En í staðinn var nafnið Tatjana úrskurðað á mannanafnaskrá.  

Í úrskurðunum um nöfnin er tekið fram hvaða skilyrði nöfn þurfa að uppfylla til þess að vera samþykkt:

  • Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli.
  • Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi.
  • Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess.
  • Eiginnafn má ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.

 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV