Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Lengi vitað að stór hluti veikra aldraða er vannærður

12.04.2021 - 13:00
Mynd: RÚV / RÚV
Um fimmtíu prósent aldraðra sem lagðir eru inn á Landspítalann eru vannærð. Þetta sýna tölur frá spítalanum. Ólöf Guðný Geirsdóttir, næringarfræðingur og dósent við Háskóla Íslands, segir að það hafi verið vitað í nokkuð mörg ár að stór hluti aldraðra sé vannærður en því miður hafi lítið sem ekkert breyst. Hún segir að til að ná tökum á þessu þurfi heilbrigðisstéttir að vinna betur saman að því að leysa þennan vanda.   

Ekki nýjar upplýsingar

Það eru sláandi upplýsingar að helmingur aldraðra, sem lagðir eru inn á Landspítalann, skuli vera vannærðir og einnig að þetta séu ekki nýjar upplýsingar.

Næringarfræðingar hafa núna í nokkur misseri fylgst með þessum tölum frá Landspítalanum, sem sýna að um helmingur aldraðra sem lagðir eru inn á spítalann eru vannærðir, og vakið athygli á þeim. Það sést ef gúgluð eru til dæmis orðin „vannærðir aldraðir“ því þá kemur upp listi yfir umfjöllun í fjölmiðlum þar sem fjallað er um vannærða aldraða hér á landi. Greinarnar sumar eru allt að 15 ára gamlar og sumar með sláandi fyrirsagnir eins og: „Stór hluti aldraðra vannærður,“ eða „Gamalt veikt fólk sveltur,“ eða „Hörmulegar aðstæður aldraðra“. 

Ekki hægt að næra upp vannærðan á tveimur vikum

Ólöf Guðný Geirsdóttir, næringarfræðingur og dósent við Háskóla Íslands, er ein af þeim næringarfræðingum sem hafa rannsakað þessi mál. Hún segir að rannsókn hafi verið gerð á næringu aldraðra árið 2004 og birt ári síðar. Einnig hafi verið gerðar rannsóknir 2011, 2015 og 2016. 

„Við erum með stöðugar rannsóknir á næringarástandi aldraðra og því miður hefur nánast lítið sem ekkert breyst varðandi það.“ Hún bendir á að sjúklingarnir á Landspítalanum núna séu mun veikari en þeir voru árið 2005 og miklar líkur séu á að mjög veikur aldraður einstaklingur sem kemur á spítalann sé vannærður. Einnig sé legutíminn að styttast og það sé alvarlegt. Það taki miklu meira en viku eða tvær að næra upp vannærðan einstakling. „Í rauninni tekur það allt upp í tvö ár og svo sendum við fólk bara heim og það er enginn strúktúr. Jú, auðvitað er fullt af góðu starfsfólki sem segir að það þurfi að borða en það er bara ekki að skila sér.“

Útrunnin matvæli

Sagt var frá rannsókn Berglindar Soffíu Blöndal, næringarfræðings, í Samfélaginu fyrir þremur árum. Rannsóknina gerði hún til meistaraprófs í næringarfræði. Þrettán aldraðir sem voru útskrifaðir heim til sín af Landspítalanum tóku þátt í henni. Meðalaldur þeirra var 87 ár. Niðurstöðurnar sýndu að næringarástand þeirra var slæmt. Þau voru öll vannærð. Berglind fór heim til þeirra og kynnti sér þau matvæli sem þar voru og í ljós kom að 33% matvælanna voru útrunnin.  

Berglind hélt svo áfram með rannsóknina og þá til doktorsprófs. Ólöf Guðný var leiðbeinandi hennar. Hluti af rannsókninni snerist um að sjá til þess að hópur þátttakenda fengi 75% af daglegri næringarþörf í sex mánuði. Ástand þeirra var síðan kannað og borið saman við annan hóp sem hafði fengið fræðslu um mikilvægi næringar og hvatningu um að fá heimsendan mat sem tryggir 30 prósent af næringarþörf fólks. 

Ólöf segir að niðurstöðurnar hafi verið sláandi. Fólkinu sem fékk mat sem tryggði 75% af næringarþörfinni fór fram. Það tapaði ekki þyngd og lífsgæði þess voru meiri. „Við sjáum að það er minna dapurt. Það virðist vera vitrænt hressara og hreyfifærni er betri. Þannig að þessu fólki fer fram. Það er hægt að tryggja það bara með mat að fólk, sem er sent heim til að byggja sig upp, að það geti byggt sig upp.“  

Afleiðingar vannæringar ekki síður andleg

Ólöf segir að vannæring hjá öldruðum hafi oft komið fram í rannsóknum og vandamálið er einnig þekkt í nágrannalöndunum. Allir aldraðir sjúklingar sem lagðir eru inn á Landspítalann séu skimaðir með vannæringu í huga. Fyrstu mælingarnar eru síðan 2004 „og þá voru eitthvað ríflega 60% vannærðir. Þannig að þetta hefur aðeins skánað.“ Fólk sé oft meðvitað um líkamlegar afleiðingar þess að vera vannærður. Til dæmis að sár gróa ekki, fólk er veikara fyrir sýkingum og þegar gamalt fólk léttist út af vannæringu er það að missa vöðva sína. „Það þýðir að þú ert að missa hreyfifærnina þína. Það er erfiðara að standa upp úr stól til að fara á salernið. Það er erfiðara að fara út að labba eða hafa orku til að gera eitthvað sem getur glatt þig.“  

Vannærðir missa áhugann á mat

Minna sé talað um andlegu áhrifin. Ólöf nefnir rannsókn sem gerð var í Bandaríkjunum eftir seinni heimstyrjöldina sem ekki verður endurtekin því hún þykir ósiðleg nú á dögum. Ungir og hressir bandarískir hermenn voru fengnir til að taka þátt í rannsókn á því hvaða áhrif svelti hefði á fólk í Evrópu eftir seinni heimsstyrjöldina. Hermennirnir fengu 50% af orkuþörf sinni. Þeir héldu áfram að vinna, hreyfðu sig o.s.frv. Niðurstöðurnar sýndu að þeir léttust, rýrnuðu og samhæfing handa og augna minnkaði. „En það sem sást og kemur okkur alltaf á óvart og sem við þekkjum nú sem sveltieinkenni er að þú verður dapur, þú verður kvíðinn, þú færð þráhyggjuhugsanir, þú verður sinnulaus. Í depurðinni kemur sú tilfinning að ekkert skipti máli.“ Þetta upplifðu ungu hermennirnir og þeir misstu líka áhuga á að borða, höfðu ekki áhuga á mat. „Maður myndi halda að ef þú ert svangur og vannærður myndi þig langa í mat. En fólk missir áhugann á mat og missir jafnvel bragðskynið og þess vegna er svo erfitt að koma matnum inn aftur.“

Aldraðir í innkaupum

Þegar fólk fer að eldast verður erfiðara að fara út og kaupa í matinn. Pokarnir fara að síga í. Ólöf minnir á að tveir lítrar af mjólk eru tvö kíló að þyngd. Og síðan þurfi að kaupa fleira. „Þetta telur allt og fyrir veikar gamlar hendur er þetta bara erfitt þannig að þú kaupir alltaf minna og minna.“ Jafnvel þegar fólk fær aðstoð við að kaupa inn sé stundum vandasamt að kaupa inn fyrir langan tíma. „Ef maður fer að versla tvisvar í mánuði þá ertu að kaupa hrökkbrauð í staðinn fyrir brauð. Þú ert að panta eitthvað eða kaupa eitthvað sem er með tveggja vikna lifunartíma. Hljómar það ferskt og freistandi?

Þátttakendum í rannsókn Berglindar var færður matur. Fólkið fékk að velja sér mat í hverri viku og maturinn var hannaður og miðaður við orku- og næringarþörf eldra fólks. Verkefnið var unnið með íslenskum fyrirtækjum, segir Ólöf. Út frá niðurstöðum rannsóknarinnar sé ljóst að heilbrigðisstéttir þurfi að tala og vinna miklu betur saman. „Við þurfum öll að hafa sömu skilaboðin, næringarfræðingar, læknar, sjúkraþjálfarar, iðjuþjálfar, bara allar heilbrigðisstéttir þurfa að vera vel upplýstar um mikilvægi næringarinnar.“ Ef einhver aldraður kemur í sjúkraþjálfun, í endurhæfingu, sé hann spurður hvort hann borði nóg, hvort hann passi upp á næringuna. „Því við höfum líka rannsóknir sem sýna að þeir einu sem náðu ekki árangri í styrktaræfingum eftir þrjá mánuði voru þeir sem ekki borðuðu nóg. Fengu ekki nægilega mikið af næringarefnum. Er það ásættanlegt að það var einn af hverjum fimm í þessum hópi og við vorum með 250 manns?“

Íslendingar gera ekki nóg

Lausnin á þessu er ekki einföld, segir Ólöf. Margir þurfi að koma að henni og ekki sé hægt að gefa pillu við vannæringu „En aðrar þjóðir ná samt betur utan um þetta en Íslendingar.  Þegar við erum komin heim þá erum við bara ekki að gera nóg.“ Hún leggur til að unnið verði í teymum og heimateymin geri athugun á heimilum áður en fólk er útskrifað. Kanni hvað sé til á heimilinu, ræði við ættingja og gefi svo ráð um hvaða vörur sé best að kaupa. „Þetta skiptir máli og þetta er jafn mikilvægt og lyfin.“

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV