Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Leiður yfir síendurteknum eignaspjöllum í Kjarnaskógi

12.04.2021 - 20:37
Framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyfirðinga hefur ítrekað þurft að skerast í leikinn þegar skemmdarvargar fara um útivistarsvæðið í Kjarnaskógi. Tjón hleypur á hundruðum þúsunda.

Fylgist vel með eftirlitsmyndavélum

Skemmdir hafa ítrekað verið unnar á húsum og innanstokksmunum í Kjarnaskógi í vetur. Búið er að koma upp eftirlitsmyndavélum víða í skóginum. Það virðist þó ekki hafa mikil áhrif. „Sko, ég er orðinn hvekktur núna og þess vegna fer ég oft að sofa klukkan 11 og rumska svona óvart um eittleytið þegar ég veit að eitthvað er að fara að gerast og reyni þá að bregðast við ef það er,“ segir Ingólfur Jóhannsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyfirðinga. 

Setur sjálfan sig í hættu

Töluvert hefur verið um hópamyndanir í skóginum að undanförnu og um helgina leysti lögreglan upp partí þar sem talið er að um 60 unglingar hafi verið saman komnir. Ingólfur fylgist vel með eftirlitmyndavélunum í skóginum og hefur oftar en ekki neyðst til þess að skerast í leikinn sjálfur sem getur reynst erfitt. 

„Það hefur oft slegið dálítið hratt, litla hjartað þegar maður veður inn í myrkrið og ætlar að fara að skamma einhverja og áttar sig svo á því að þeir eru fimm og gætu verið með hníf.“

Þú hefur alveg óttast um þitt öryggi þegar þú ert að vaða inn í þessar aðstæður?

„Ég er engin hetja, auðvitað er ég hræddur.“

Ætla að auka eftirlit og samstarf við lögreglu

Hann segir að nú sé mál að linni. „Ég er eiginlega ekkert til í að bjóða starfsfólkinu mínu upp á mæta hérna á morgnana og moka upp bara einhverjum glerbrotum sem eru mökuð í hlandi og einhverju þannig, það náttúrlega bara gengur ekki og þess vegna ætlum við að stoppa þetta.“

Hvernig ætlið þið að stoppa þetta?

„Við bara ætlum að gera það með því að nýta okkur myndavélatæknina og bæta það og hafa aukið samstarf við lögreglu og ef það virkar ekki þá fer ég að sofa hérna.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV