Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Lasso verður næsti forseti Ekvador

12.04.2021 - 04:44
epa09129997 Presidential candidate Guillermo Lasso (C) delivers statements, in Quito, Ecuador, 11 April 2021. Lasso has been declared the winner in this Sunday's ballot in Ecuador when the 97.22 percent of the votes gave him a difference of 5.03 points over his rival Andres Arauz.  EPA-EFE/Santiago Fernandez
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Guillermo Lasso, frambjóðandi íhaldsmanna, lýsti yfir sigri í forsetakosningunum í Ekvador í gærkvöld eftir að Andres Arauz játaði sig sigraðan. Lasso kveðst reiðubúinn að takast á við að breyta örlögum ríkisins.

Ekvador glímir við nokkuð djúpa efnahagslægð ofan á kórónuveirufaraldurinn.
Þegar búið var að telja um 93 prósent atkvæða reyndist Lasso hafa fengið 52,5 prósent atkvæða en Arauz 47,5. Allt er því þegar þrennt er í tilfelli Lasso, sem hefur tvisvar orðið í öðru sæti í forsetakosningum. Hann tapaði fyrir Rafael Correa, læriföður Arauz, árið 2013, og gegn Lenin Moreno fyrir fjórum árum.

Ljóst er að Lasso bíður nokkuð erfitt verk, þar sem flokkar sem aðhyllast stefnu Arauz og fyrri forseta eru í meirihluta á þingi. AFP fréttastofan hefur eftir stjórnmálaskýrandanum Pablo Romero úr Salesiana háskólanum að það eigi eftir að vera stanslaus spenna á milli löggjafans og framkvæmdavaldsins. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV