Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Hraunrennslið hefur minnkað aftur

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Heildarrennsli úr hraungígunum á Reykjanesskaga hefur minnkað á nýjan leik eftir að það jókst í síðustu viku. Hraunrennslið hefur verið tæpir fimm rúmmetrar á sekúndu að meðaltali síðustu fjóra daga. Það er nánast sama magn og meðalrennslið sem var úr eldgosinu framan af. Rennslið jókst hins vegar í síðustu viku eftir að fleiri gígar opnuðust.

Í færslu á vef Jarðvísindastofnunar sem birtist á ellefta tímanum í kvöld kemur fram að landlíkön af hraununum voru unnin á grundvelli loftmynda sem voru teknar af hraunrennslinu í hádeginu.

Niðurstöðurnar lágu fyrir í kvöld. „Svo virðist sem aukningin sem kom fram í síðustu viku, samhliða opnun nýrra gíga hafi verið fremur skammlíf,“ segir í færslunni. „Flatarmál hrauns hefur vaxið hlutfallslega lítið síðustu sólarhringa, enda hefur kvikan sem komið hefur upp undanfarið að mestu farið í að auka þykkt hraunsins.“ Hraunið allt er nú orðið rúmlega tíu milljón rúmmetrar.