Héraðssaksóknari fellir niður mál Kristjáns Gunnars

12.04.2021 - 13:57
Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Embætti héraðssaksóknara hefur fellt niður mál Kristjáns Gunnars Valdimarssonar, lektors við Háskóla Íslands. Þetta staðfestir Katrín Hilmarsdóttir, saksóknari hjá embættinu, í skriflegu svari við fyrirspurn fréttastofu. „Málin voru ekki talin líkleg til sakfellis og því felld niður með vísan til laga um meðferð sakamála.“ Brotaþolar í málinu voru fjórir en málin þrjú og var það aðallega rannsakað sem kynferðisbrot. Brotaþolarnir geta kært niðurstöðuna til embættis ríkissaksóknara.

Mál Kristjáns Gunnars vakti mikla athygli en hann er starfandi lögmaður, lektor við Háskóla Íslands og einn helsti skattasérfræðingur landsins.  

Fram kom í fréttum að Kristján hefði fyrst verið handtekinn á Þorláksmessu árið 2019, þá grunaður um frelsissviptingu og kynferðisbrot gegn konu á þrítugsaldri.  Hann var látinn laus að morgni aðfangadags en síðan handtekinn aftur á jólanótt.  

Hann var í framhaldinu úrskurðaður í fimm daga gæsluvarðhald. Þegar lögreglan hugðist fara fram á áframhaldandi fjögurra vikna gæsluvarðhald yfir honum var þeirri beiðni hafnað, bæði af Héraðsdómi Reykjavíkur og Landsrétti.  

Tveir af réttargæslumönnum kvennanna sem kærðu Kristján  gagnrýndu í vinnubrögð lögreglunnar í fjölmiðlum. Saga Ýrr Jónsdóttir, annar þeirra, gaf í skyn að Kristján hefði notið sérmeðferðar vegna stöðu sinnar.  Hún krafðist þess að héraðssaksóknari rannsakaði störf lögreglu á vettvangi.

Lögregla lauk rannsókn sinni á málinu í júli á síðasta ári, þaðan fór það til ákærusviðs sem síðan sendi málið til embættis héraðssaksóknara í lok ágúst. Það hefur nú fellt málið niður en brotaþolarnir geta kært þá niðurstöðu til embættis ríkissaksóknara.