Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Hafði áhyggjur af lagastoð eftir ríkisstjórnarfund

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, fékk áhyggjur af því að ekki væri nægileg lagastoð fyrir því að skikka farþega, sem búsettir væru hér á landi, í sóttkvíarhótel við Þórunnartún eftir fund ríkisstjórnarinnar þann 30. mars. Hún lét því ráðuneytið útbúa álitsgerð þar sem komu fram efasemdir um lagastoðina. Álitsgerðin var send heilbrigðisráðuneytinu laugardaginn 3. apríl eða sama dag og ljóst var að látið yrði reyna á dvölina fyrir dómstólum.

Þetta var meðal þess sem kom fram í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag.

Sóttkvíarhótelið var hluti af aðgerðum stjórnvalda til að reyna að stoppa í götin á landamærunum og koma í veg fyrir að smit kæmust þar í gegn. Hótelið við Þórunnartún reyndist umdeilt og nokkrir farþegar kærðu það til Héraðsdóms Reykjavíkur.

Dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri heimilt að skikka fólk, sem gæti verið í sóttkví heima hjá sér, á sóttkvíarhótelið. Niðurstaðan var kærð til Landsréttar sem vísaði henni frá.

Ríkisstjórnin hefur sætt nokkurri gagnrýni fyrir hvernig staðið var að málum. Páll Þórhallsson, lögfræðingur í forsætisráðuneytinu, skilaði minnisblaði til forsætisráðuneytisins mánudaginn 29. mars þar sem hann sagðist ekki vera í vafa um að lagastoð væri fyrir sóttkvíarhótelinu. Daginn eftir fundaði ríkisstjórnin og síðar daga var reglugerðin birt.

Morgunblaðið greindi svo frá því í morgun að dómsmálaráðherra hefði látið vinna minnisblað þar sem komist var að allt annarri niðurstöðu; að ákveðnar efasemdir væru um lögmæti sóttkvíarhótelsins. Það minnisblað var þó ekki hluti af þeim gögnum sem velferðarnefnd fékk afhent og fjölmiðlar óskuðu eftir og fengu því það lá ekki fyrir þegar ríkisstjórnin samþykkti reglugerðina.

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, spurði dómsmálaráðherra út í þessa álitsgerð ráðuneytisins í óundirbúnum fyrirspurnatíma í dag þar sem hann undraðist að þetta minnisblaði hefði ekki verið afhent. „Þetta skilur eftir þá spurningu hvernig sé hægt að halda því fram að full sátt hafi verið um þetta mál í ríkisstjórninni og hvað varð þess valdandi að ráðherra lét vinna þessa álitsgerð? Voru það efasemdir sem ekki var lýst á ríkisstjórnarfundinum?“ 

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, sagði það ekki vera hlutverk dómsmálaráðuneytisins að afla lögfræðiálits um reglugerðir annarra ráðuneyta. Efasemdir hefðu kviknað hjá sér um lögmæti þessarar aðgerðar eftir fund ríkisstjórnarinnar þann 30.mars og því hefði hún látið vinna þessa álitsgerð.

Hún hefði síðan verið send ráðuneytinu laugardaginn 3. apríl eða sama dag og nokkrir gestir á sóttkvíarhótelinu kærðu dvöl sína þar til Héraðsdóms Reykjavíkur.

Bergþór spurði ráðherra hver viðbrögð heilbrigðisráðuneytisins hafa verið því þetta virtist hafa verið fyrsta lögfræðiúttektin sem hefði verið gerð af „einhverri dýpt.“  Hann gagnrýndi síðan þá leynd sem virtist eiga að hvíla yfir þessum „hrakförum sem virðast hafa verið á meðförum þessa máls hjá dómsmálaráðherra.“ Hann leiðrétti sig síðar meir og sagðist hafa verið vísað til hrakfara heilbrigðisráðherra

Enda vísaði Áslaug Arna öllum fullyrðingum þingmannsins um hrakfarir sínar á bug. Hún hefði einfaldlega haft áhyggjur af lagastoðinni á grundvelli þeirra gagna sem lögð voru fyrir fund ríkisstjórnarinnar þann 30. mars. Hún hefði því látið vinna þessa álitsgerð þar sem fram komu efasemdir um að fullnægjandi lagastoð væri fyrir hendi.

Álitsgerðin hefði verið send heilbrigðisráðuneytinu, þar hefði henni verið vel tekið og þakkað fyrir hana. Síðar sama dag hefði orðið ljóst að nokkrir gestir ætluðu að láta reyna á dvöl sína fyrir dómi.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV