Hafa ekki kannað áhrif gasmengunar á fugla

Mynd með færslu
 Mynd:
Grindvíkingar hafa velt því fyrir sér hvort fuglar hegði sér með öðrum hætti en venjulega, eftir að eldgosið á Reykjanesskaga hófst. Í umræðum íbúa á Facebook hefur meðal annars verið bent á að óvenjumikið sé um hrafna í og við bæinn, auk þess sem mikið hafi verið um að þrestir hafi flogið á glugga og jafnvel inn í hús og íbúðir. Fólk velti því fyrir sér hvort gasmengun hafi hugsanlega ruglað fuglana.

Kristinn Haukur Skarphéðinsson, fuglafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, segir að ekki sé búið að kanna hugsanleg áhrif gasmengunar á fugla. Hrafnarnir séu væntanlega að hirða upp fæðuleifar sem sá mikli fjöldi fólks sem á leið um svæðið hefur kastað frá sér, enda séu þeir mjög fundvísir á slíkar matarholur.

Þá hafi þrestir og hrossagaukar komið til landsins í stórum stíl rétt fyrir hretið, og átt erfitt uppdráttar þangað til það fór að hlýna. Þeir hafi því líklega sótt óvenjumikið í húsagarða og verið þar af leiðandi meira útsettir fyrir að fljúga á glugga.