Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Góðar hagvaxtarhorfur í helstu viðskiptaríkjum Íslands

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Tryggvason - RÚV
Hagvaxtarhorfur eru góðar í helstu viðskiptaríkjum Íslands, samkvæmt efnahagspá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) sem birt var í síðustu viku. Hagfræðideild Landsbankans birti í dag samantekt á hagvaxtarspá AGS í þeim ríkjum sem vega þyngst í utanríkisviðskiptum Íslands.

Þar kemur fram að hagvöxtur í þrettán helstu viðskiptaríkjunum verði að jafnaði 4,8 prósent á þessu ári og 3,9 prósent á því næsta. Til samanburðar mældist 5,1 prósenta samdráttur í löndunum að meðaltali á síðasta ári. 

Evrusvæðið vegur um 41 prósent í viðskiptum Íslands við þrettán stærstu viðskiptalöndin og á þessu ári spáir AGS 4,4 prósenta hagvexti þar. Viðskipti við Bandaríkin vega næstþyngst og þar er gert ráð fyrir 6,4 prósenta hagvexti, miklum viðsnúningi frá því á síðasta ári þegar samdrátturinn var 3,5 prósent. Bretland er þriðja helsta viðskiptaríkið, og þar spáir sjóðurinn 5,3 prósenta hagvexti á þessu ári, en til samanburðar var þar 9,9 prósenta samdráttur í fyrra. 

Fréttastofa fjallaði um hagspá AGS í síðustu viku en hún gerir ráð fyrir 3,7 prósenta hagvexti á Íslandi á þessu ári og ögn minni vexti á næsta ári, en að þá verði landsframleiðslan orðin örlítið meiri en hún var árið 2019. Þá gerir AGS ráð fyrir að verðbólga hér á landi verði 3,2 prósent á þessu ári en í kringum verðbólgumarkmið árin á eftir. Spáin gerir ráð fyrir 6,4 prósenta atvinnuleysi á þessu ári og 6 prósentum á því næsta.