Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Giftu sig við gosstöðvarnar

Mynd með færslu
 Mynd: Styrmir Kári & Heiðdís - Pink Iceland
Sumarliði V. Snæland Ingimarsson og Jón Örvar Gestsson héldu heldur óhefðbundna giftingarathöfn síðastliðinn föstudag þegar þeir létu pússa sig saman við gosstöðvarnar í Geldingadölum. „Við ætluðum að gifta okkur 5. september síðastliðinn. Við vorum að vinna í því skipulagi í fyrravor þegar kórónuveirufaraldurinn skall á og ákváðum þá að bíða,“ segir Sumarliði.

Síðan leið og beið þar til skipuleggjendur á vegum ferðaþjónustu- og viðburðafyrirtækisins Pink Iceland höfðu samband við þá fyrr í mánuðinum og lýstu yfir áhuga á að halda athöfnina við eldgosið.

„Fyrst vorum við stressaðir yfir pælingunni að gera þetta strax en við slógum bara til,“ segir Sumarliði. „Svo höfðum við bara fimm daga til að græja jakkafötin, láta pússa hringana okkar og fara í klippingu.“

„Við vissum ekki við hverju við áttum að búast. Við fórum þarna að skoða svæðið á miðvikudaginn og lentum í miklu mengunarskýi. Allir gasmælarnir voru pípandi á öllum björgunarsveitarmönnum þegar við komum og það var verið að rýma allt. Daginn eftir var slagviðri og enginn uppi á fjalli þannig að við vissum ekki alveg við hverju við ættum að búast á föstudeginum,“ segir Sumarliði.

Þegar á hólminn var komið reyndust aðstæður betri en margir höfðu vonað. „Á leiðinni upp á fjallið var snjóstormur en um leið og við komum upp að nýju eldstöðinni þá opnaðist himininn og sólin kom út,“ segir Sumarliði. „Við vorum bara í gönguskóm og úlpu. Maður var alveg rennblautur um hárið eftir að það snjóaði svo mikið á leiðinni upp. Við fórum í allt dressið fyrir framan eldfjallið í rauninni,“ segir hann.

„Þetta var æðislegt. Orð fá þessu bara varla lýst,“ segir hann og bætir við að brúðkaupsveisla verði haldin síðar þegar sóttvarnareglur leyfa.

Birna Hrönn Björnsdóttir, eigandi og brúðkaupsskipuleggjandi hjá Pink Iceland, segir verkefnið hafa verið mjög krefjandi en vonar að fleiri pör vilji gifta sig við gosstöðvarnar.

„Núna þegar myndirnar eru komnar á internetið og samfélagsmiðla er þetta farið að vekja heimsathygli þannig að við eigum alveg von á því að fá fleiri beiðnir um þetta,“ segir Birna.