Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Flóttamenn létu lífið á leið til Kanaríeyja

12.04.2021 - 01:53
Erlent · Afríka · Flóttamenn · Spánn · Evrópa
epa09125383 Migrants arrive after being rescued by Spanish Salvamento Maritimo in Fuerteventura, Canary Islands, Spain, 09 April 2021. panish Salvamento Maritimo has rescued 65 migrants when they traveled on board two small boats trying to reach the Spanish coast.  EPA-EFE/CARLOS DE SAA
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Fjórir fundust látnir um borð í bát fullum af flóttamönnum nærri 200 kílómetrum suður af eyjunni El Hierro við Kanaríeyjar. Sjómenn urðu varir við bátinn og höfðu samband við viðbragðsaðila.

Al Jazeera hefur eftir Rauða krossinum á Spáni að 23 hafi verið um borð í bátnum. Sextán þeirra eru mjög illa haldnir, en ástand hinna þriggja sem eftir voru er ágætt. Öllum var komið frá borði með þyrlu.

Því fjölgar nokkuð fólkinu sem reynir að flýja örbirgð í Afríku vestur til Kanaríeyja. Um áttfalt fleiri freistuðu þess að komast þangað í fyrra en árið á undan. Alls komust um 23 þúsund á land, en talið er að 850 hafi dáið á leiðinni eða sé saknað. Á fyrstu þremur mánuðum þessa árs hafa 3.400 flóttamenn farið sjóleiðina til Kanaríeyja. Það eru rúmlega tvöfalt fleiri en á sama tímabili árið 2019.

Alls hafa fleiri en 20 þúsund flóttamenn dáið við að reyna að komast siglandi frá Afríku til Evrópu. Þar af dóu rúmlega 17 þúsund á Miðjarðarhafinu, sem Sameinuðu þjóðirnar segja einhverja hættulegustu flóttamannaleið í heiminum.