Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Fer til útlanda ef guð og sprautur lofa“

Mynd: RÚV / Skjáskot
Ólíklegt er að ferðaþjónustufyrirtæki hafi tök á að bjóða Íslendingum jafn góð tilboð og síðasta sumar. Þetta segir Jóhannes Þór Skúlason framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar. Hann segir að vonast sé til að stjórnvöld gefi landsmönnum aðra ferðaávísun, en ekki liggur fyrir hvort af henni verður. Vegfarendur sem fréttastofa tók tali sjá flestir fram á íslenskt ferðasumar.

Fjölmörg ferðaþjónustufyrirtæki buðu landsmönnum upp á góð kjör í fyrra og nam afslátturinn allt að 75%. Jóhannes segir að fyrirtækin séu á mun erfiðari stað núna. „Þau þurfa að opna stærra og hraðar til þess að ná þeim ferðamannastraumi sem verður í boði, ef einhver verður. Það þýðir einfaldlega að það þarf að ráða fleira starfsfólk og þá eru verðin, sem var verið að bjóða síðasta sumar, ósjálfbær í rauninni. Þau voru það þegar í fyrra en þá var kannski hægt að lifa með því í 2-3 mánuði,“ segir Jóhannes.

Í fyrra fengu landsmenn 5.000 króna ferðagjöf frá stjórnvöldum sem nota mátti til að greiða niður kostnað á hótelum, veitingastöðum, menningarviðburðum og ýmis konar afþreyingu. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra ræddi nýja ferðagjöf á ríkisstjórnarfundi í síðasta mánuði, en samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu hefur ekki verið tekin ákvörðun um hvort af því verði.

Þegar hafa tæplega 200 þúsund Íslendingar notað ferðagjöfina og um 36 þúsund hafa ekki gert það. 

„Það væri mjög ánægjulegt að sjá aukið við ferðagjöfina,“ segir Jóhannes. „Ég held að allt svona skipti máli. Við sáum það að ferðagjöfin varð til hvatningar í fyrra og ég efast ekki um að hún yrði það aftur í sumar.“

Landsmenn virðast byrjaðir að skipuleggja sumarfríið, að minnsta kosti þeir sem fréttastofa hitti á förnum vegi.

„Við ætlum að vera svolítið dugleg að fara  hálendið,“ sagði Anna Dís Sveinbjörnsdóttir. Grétar Ívarsson eiginmaður hennar sagði þau að sjálfsögðu bíða eftir hvaða sóttvarnareglur giltu í sumar, „En við viljum gjarnan vera ein og sér í okkar litla tjaldi einhversstaðar og ekki í margmenni.“

Þegar sonur þeirra Sindri Grétarsson var spurður um áætlanir sínar fyrir sumarið var svarið: „Vinna. Og vinna og vinna. Það eru mín plön.“

„Ég seldi hjólhýsið mitt og byggði mér pott heima. Ég hugsa að ég verði bara þar, í garðinum heima hjá mér,“ sagði Kolbeinn Árnason. Og Harpa Barkar tók undir þetta: „Já, og njóta þess að vera heima.“

Mayra Gonzales sagðist ekki hafa ákveðið hvernig hún verði sumarfríi sínu. „Ég veit ekki ennþá hvað ég ætla að fara að gera. Út af ástandinu líka - það bara kemur í ljós.“  Ertu búin að panta ferð eða ganga frá einhverju? „Nei, ekki neitt.“

Bjarni Torfi Álfþórsson hefur hug á að ferðast til útlanda í sumar. „Það stóð til að vera erlendis í sumar en að öllum líkindum frestast það eitthvað. En ég stefni á tvær hjólaferðir í Austurríki í lok ágúst og september ef guð og sprautur lofa,“ sagði Bjarni Torfi.