8.200 bólusettir með Pfizer í þessari viku

Bólusetning í Laugardalshöll
 Mynd: RÚV - Skjáskot
8.200 verða bólusettir með Pfizer í þessari viku, samkvæmt upplýsingum frá embætti sóttvarnalæknis. Byrjað verður að bólusetja fólk með undirliggjandi áhættuþætti. Búið er að fullbólusetja 1 af hverjum 10 sem stjórnvöld ætla að bólusetja en það eru allir Íslendingar, 16 ára og eldri. Von er á fyrstu skömmtunum frá lyfjaframleiðandanum Janssen á miðvikudag.

Þeim fjölgar sífellt sem fá skilaboð frá heilsugæslustöðinni sinni um að mæta í bólusetningu. 8.300 fengu bóluefni frá Pfizer og Moderna í síðustu viku og nú fá 8.200 bóluefni frá Pfizer. Samkvæmt svörum heilbrigðisráðherra á Alþingi verða um 8.000 bólusettir með efninu á morgun sem verður þá stærsti einstaki bólusetningadagurinn til þessa.

Alls hafa 61.134 fengið að minnsta kosti einn skammt eða tveir af hverjum tíu sem á að bólusetja.  Nær allir sem eru 80 ára og eldri eru fullbólusettir og þriðjungur fólks á aldrinum 70 til 79 ára.

Notast er við þrjú bóluefni hér á land sem öll þurfa tvær sprautur; Pfizer, Moderna og AstraZeneca. Þrjár vikur líða á milli fyrri og seinni sprautunnar hjá Pfizer, fjórar vikur hjá Moderna og þrír mánuðir hjá AstraZeneca.  

Engar takmarkanir eru við notkun á tveimur fyrrnefndu bóluefnunum en hvorki konur undir 55 ára aldri né fólk yngri en 70 ára fær bóluefni AstraZeneca. Þegar byrjað verður að bólusetja fólk á aldrinum 60 til 69 er líklegt að bóluefnið verði í boði fyrir hluta þess aldurshóps. 

 

Ákveðin tímamót verða þegar byrjað verður að nota bóluefnið frá Janssen en fyrstu 2.400 skammtarnir eru væntanlegir til landsins á miðvikudag.  Aðeins þarf einn skammt af bóluefninu til að veita vörn gegn COVID-19 en ekki er búið að ákveða hverjir fá það bóluefni. Samkvæmt upplýsingum frá sóttvarnalækni er það í vinnslu. 

Eins og sést á töflu heilbrigðisráðuneytisins hér að neðan verður nokkuð mikið um að vera í bólusetningum í þessum mánuði eftir nokkurn hægagang á fyrstu mánuðum ársins. 

Bóluefnaframleiðendur miða við vikur í afhendingaráætlun sinni og nú erum við stödd í viku 15 en bólusett er með því efni sem barst vikuna áður eða í viku 14.    

Anna María Snorradóttir, verkefnastjóri hjá Landlæknisembættinu, segir að bóluefnið komi oft á fimmtudögum til laugardags. Því er dreift á þriðjudögum í vikunni á eftir út um landið. „Það þarf að afgreiða efnið, fara yfir alla hitaferli í flutningi og fleira áður en það er tilbúið til áframhaldandi dreifingar. Það er sent einu sinni í viku á alla dreifingarstaði en oftar á höfuðborgarsvæðinu ef þarf,“ segir hún í skriflegu svari við fyrirspurn fréttastofu.

Í síðustu viku aprílmánaðar er búist við algjörum metfjölda skammta af bóluefnum því þá eiga að berast 25.400 skammtar af bóluefnunum fjórum sem hafa fengið skilyrt markaðsleyfi.  Það efni verður síðan væntanlega notað fyrstu vikuna í maí.

 
freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV