Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Yngra fólk fleira en eldra á gjörgæsludeildum Brasilíu

11.04.2021 - 17:36
epaselect epa09118936 Workers of the Emergency Medical Care Service (SAMU) help people with covid-19 in Salvador, capital of the state of Bahia, Brazil, early 04 April 2021 (issued 06 April 2021). Brazilian state Bahia, suffers with the high number of covid-19 cases and the reduced number of beds available in Intensive Care Units, since their capacity is at the limit.  EPA-EFE/FELIPE IRUATA  ATTENTION: This Image is part of a PHOTO SET
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Fjöldi COVID-19 sjúklinga yngri en 40 ára varð í mars í fyrsta sinn fjölmennari á gjörgæsludeildum í Brasílíu en elsti aldurshópurinn. Þetta leiðir ný rannsókn sem Samtök gjörgæslulækninga í Brasilíu gerði í ljós.

Dauðsföllum hefur farið fjölgandi í landinu, að mestu rakin til nýs afbrigðis veirunnar. FJöldi sjúklinga 39 ára og yngri á gjörgæsludeildum landsins  jókst skarpt í mars og telur nú yfir ellefu þúsund manns, eða rúm 52 prósent COVID-19 sjúklinga á deildunum. Snemma í faraldrinum var þessi aldurshópur rétt innan við 15 prósent gjörgæslusjúklinga í Brasilíu en hefur frá september og fram í febrúar verið um 45 prósent sjúklinga á gjörgæslu, samkvæmt rannsókninni sem AFP fréttastofan greinir frá. 

Nýtt afbrigði meira smitandi 

APF fréttastofan hefur eftir lækninum Ederlon Rezende, sem var einn stjórnenda rannsóknarinnar, að áður hafi yngri aldurshópurinn aðeins þurft að kljást við væg einkenni sjúkdómsins og ekki verið lagður inn á gjörgæslu. Breytingin sé því þýðingarmikil og kunni að skýrast af nokkrum þáttum.

Þar beri helst að nefna að sjúklingar yfir áttræðu sé að mestu búinn að fá bólusetningu. Sjúklingum í þessum aldurshópi hafi fækkað úr tæpum fjórtán prósentum í tæp átta í mars. Þá sé ungt fólk einnig útsettara fyrir smiti því það sé meira á ferðinni eða telur sig ekki þurfa að hafa áhyggjur af smiti.

Þá geti nýtt afbrigði kórónuveirunnar í Brasilíu, þekkt sem P1, skýrt þá aukningu sem orðið hafi í dauðsföllum í landinu í mars. Fólk sem hafi áður smitast af upprunalega afbrigði veirunnar geti smitast af þessu nýja sem sé þar að auki meira smitandi.

Ekki með undirliggjandi sjúkdóm

Þá veki athygli að unga fólkið sem nú liggi á gjörgæsludeildum Brasilíu sé ekki með undirliggjandi sjúkdóma og meira veikt. Hlutfall gjörgæslusjúklinga án undirliggjandi sjúkdóma hafi aukist um nærri þriðjung í mars og telji nú rúm 30 prósent heildarfjöldans. Þá hafi 58 prósent sjúklinga þurft að fara í öndunarvél í mars og hafi aldrei verið fleiri.  

Alls létu yfir 66.500 manns lífið af völdum COVID-19 í Brasilíu í mars, meira en tvöfalt fleiri en í júlí í fyrra þegar fyrra met var sett. Frá því að faraldurinn barst til Brasilíu hafa 351þúsund manns látið lífið af völdum COVID-19 en alls búa 212 milljónir manna í Brasilíu. Aðeins í Bandaríkjunum hafa fleiri látið lífið af völdum COVID-19. 
 

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV