
Skemmdir unnar á mosku í borginni Rennes í Frakklandi
Gerald Darmanin innanríkisráðherra fordæmir athæfið sem átti sér stað tveimur dögum fyrir upphaf Ramadan, föstuhátíðar múslíma. Nathalie Appere borgarstjóri og Valerie Boyer þingmaður taka undir fordæmingu ráðherrans.
Krotið á veggi moskunnar innihélt orðfæri sem beindist að trúarbrögðunum sjálfum, spámanninum Múhammeð og hvöttu til nýrra krossferða gegn múslímum. Jafnframt innihélt það kröfu um að kaþólska yrði tekin upp sem ríkistrú í Frakklandi.
Kaþólskir Evrópumenn héldu í krossferðir á seinni hluta miðalda í upphafi til að ná Jerúsalem úr höndum múslíma. Saksóknari í Rennes hefur með rannsókn málsins að gera en Mohammed Zaidouni forseti svæðisráðs múslíma í Rennes kveðst sleginn yfir athæfinu.
„Við erum börn lýðveldisins en stöndum frammi fyrir hatri, ofbeldi og villimennsku,“ sagði hann í samtali við AFP fréttastofuna.