Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Ógnvænleg og heillandi fegurð eldgíga í Geldingadölum

Mynd: Grímur Jón Sigurðsson / RÚV
Þótt hraunrennslið úr gígunum fjórum í Geldingadölum sé lítið í samanburði við flest önnur gos er sjónarspilið óneitanlega tilkomumikið. Gosið hefur laðað að sér þúsundir eða tugi þúsunda ferðalanga og enn dreymir marga bæði hérlendis og erlendis um að fá að heimsækja gosið og ná af sér ódauðlegri ljósmynd með bjarmann í baksýn.

Jarðvísindamenn hafa staðfest að kvikan sé frumstæðari en í öðrum gosum á sögulegum tíma, en eldgos virðist kalla fram frumstæða löngun hjá nútímafólki að takast á við náttúruöflin.

Vel klætt og skætt flykkist fólk að gosstöðvunum með vasklegt björgunarsveitarfólk til aðstoðar ef eitthvað ber út af og gasmæla og önnur öryggistæki til að vara við mögulegri hættu.

Knátt vísindafólk veitir nýjar upplýsingar í sífellu og svarar spurningum fréttafólks og almennings af mikilli kunnáttu. 

Geldingadalir, grunnir dalir eða dældir með breiðri grasflöt, austan undir Fagradalsfjalli, eru nú á allra vörum rétt eins og gróðurlitlar leirflatir Meradala.

Tíminn einn á eftir að leiða í ljós hvort gígunum í Geldingadölum á enn eftir að fjölga, hve lengi gosið varið og hve víðáttumiklar hraunflatirnar verða.

En meðan gosið varir er hægt að ylja sér við fagrar myndir og myndskeið líkt og það sem Grímur Jón Sigurðsson myndatökumaður RÚV tók í gær og fylgja hér með.