Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Minnsti ræfill aldarinnar en vinsælasta eldgos sögunnar

Mynd: Grímur Jón Sigurðsson / RÚV
Eldgosið í Geldingadölum er, enn sem komið er, það minnsta sem hefur orðið hér síðustu áratugi. Almenningur hefur aldrei fengið jafn greiðan aðgang að gosstöðvum hér. Þetta er langvinsælasta gos Íslandssögunnar, en það sjötta í röðinni á þessari öld. Sex ár eru liðin frá síðasta gosi, sem varði í hálft ár.

Grímsvötn, Fimmvörðuháls, Eyjafjallajökull

Vatnajökull reið á vaðið á 21. öldinni, að kvöldi 1. nóvember 2004. Gosið í Grímsvötnum stóð yfir í viku. 

Rúmum fimm árum síðar, 20. mars 2010, rumskaði Eyjafjallajökull. Kvikan kom upp í nánd við Fimmvörðuháls. Gosið stóð í tæpan mánuð, til 13. apríl. En það var næsta morgunn sem fór fyrst að draga til tíðinda. 

Eldgos hófst í Eyjafjallajökli næstu nótt, margfallt stærra en fyrirboðinn. Sigdæld myndaðist strax við hábungu jökulsins og gosbólstrar stigu í 12 þúsund fet. Gosið bræddi ísinn, bjó til flóð og stöðvaði flugumferð í heiminum. Og eldfjallið með erfiða nafnið varð heimsfrægt, nánast yfir nótt. Eldgosið í Eyjafjallajökli stóð yfir í rúman mánuð, til 23. maí.  

Vatnajökull, taka tvö

Svo leið næstum því heilt ár án eldgoss á Íslandi. En þá var friðurinn úti. Eldgos hófst í Grímsvötnum þann 12. maí 2011. Gosmökkurinn sást allt frá Egilsstöðum til Selfoss. Hann náði um 20 kílómetra upp í loftið og öskufallið var gífurlegt - um tvöfalt magn sem kom úr Eyjafjallajökli. Eldgosið í varði í viku og var formlega lokið morguninn 28. maí. 

Þjófstartandi og langvinnt gos

Þremur árum síðar birtist svo lítið eldgos norður af Dyngjujökli rétt eftir miðnætti 29. ágúst 2014. Eldurinn færðist í aukana fyrstu tvær klukkustundirnar, en síðan dró úr honum og töldu vísindamenn að gosinu hafi verið lokið um klukkan fimm sömu nótt. En það var boðberi frekari tíðinda. Tveimur dögum seinna, 31. ágúst, byrjaði svo að gjósa í Holuhrauni fyrir alvöru. Allt að hundrað metra háir gosstrókar hafa þeyttust upp úr 1.5 kílómetra langri sprungunni, sem er sú sama og opnaðist tveimur dögum áður. Gosið í Holuhrauni náði hámarki á fyrsta degi. Og það gaus úr sprungunni vel og lengi, í hálft ár. Því lauk formlega 27. febrúar 2015. 

Tignarlegt, en ekki stórt 

Fyrir rúmum þremur vikum opnaðist svo jörð á Reykjanesskaga, eftir átta hundruð ára hlé. Eldgos hófst í Geldingadölum föstudagskvöldið 19. mars 2021. 

„Það sem við erum að horfa á er bara óttalegur ræfill. Þetta er búið að vera í gangi í um tvo og hálfan tíma núna,” sagði Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur þegar hann var að fljúga yfir gosstöðvarnar.

„Svona hraungos eru alltaf mjög tignarleg. En þetta er nú ekki stórt.”

Tæknin hefur þróast hratt á þessum sex árum síðan það gaus í Holuhrauni. Vefmyndavélar, farsímar, drónar og endalaus upplýsingamiðlun hafa gert öllum kleyft að fylgjast með þróun og vexti litla ræfilsgossins í Geldingadölum, allan sólarhringinn. Og heppileg staðsetningin hefur gert þetta að vinsælasta eldgosi Íslandssögunnar.