Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Miklar uppsagnir á hjúkrunarheimilum Hrafnistu

Mynd með færslu
 Mynd: Rúv
Tuttugu stjórn­endum, hjúkr­un­ar­fræðingum, ræsti­tæknum og öðru starfsfólki hefur verið sagt upp störfum á hjúkrunarheimili Hrafnistu við Sléttuveg. Uppsagnirnar voru um síðustu mánaðamót og næstu á undan en á annan tug starfsmanna var sagt upp á öðrum Hrafnistuheimilum.

Frá þessu er greint á mbl.is og haft eftir Maríu Fjólu Harðardótt­ur, for­stjóra Hrafn­istu­heim­il­anna að ræsting sé nú aðkeypt en enginn hafi verið ráðinn í stað annarra starfsmanna.

Hrafnistuheimilin eru rekin með þjónustusamningi við ríkið og María Fjóla segir uppsagnirnar endurspegla erfið rekstrarskilyrði. Hún kveðst áhyggjufull enda sjái hún fram á tuga milljóna halla í rekstrinum á árinu þrátt fyrir hagræðingu en einingarverð það sem hverjum íbúa fylgi standi ekki undir launahækkunum starfsfólks.

Ekkert bóli enn á skýrslu heilbrigðisráðuneytisins um rekstur hjúkrunarheimila og María segir erfitt að vita ekki fyrirfram hverjar tekjur heimilanna eru en fleira starfsfólk þurfi til að uppfylla þær kröfur sem gerðar séu til heimilanna.