Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Hið þjáða andlit X-kynslóðarinnar

11.04.2021 - 07:30
Mynd: 95kqds.com / 95kqds.com
Á mánudaginn var voru liðin 27 ár frá því að bandaríski tónlistarmaðurinn Kurt Cobain svipti sig lífi. Hann var þá 27 ára að aldri og forsprakki einnar vinsælustu hljómsveitar heims. Hann var tákn heillar kynslóðar. En vanlíðanin var aldrei langt undan í lífi Cobains, bæði líkamleg og andleg.

Árið 2015 keypti Bandaríkjamaðurinn Garrett Kletjian sér peysu. Já, einmitt, svona byrja áhugaverðar sögur. Peysan var reyndar ekki ný, hún var grá og þvæld, lyktaði ekkert sérstaklega vel. Þetta var hneppt peysa en á hana vantaði nokkrar tölur. Auk þess voru á henni brunagöt eftir sígarettur. Í öðrum vasanum á peysunni er brúnn harður blettur, nokkuð sem peysueigandinn Kletjian telur að sé annað hvort eftir súkkulaði eða ælu. 

Fyrir þessa ágætu peysu borgaði Kletjian hátt í átján milljónir íslenskra króna. Af hverju í ósköpunum? kannt þú að spyrja þig lesandi góður. Jú, það er vegna þess að peysan var áður í eigu Kurt Cobain. Þetta er gráa peysan sem hann klæddist í á órafmögnuðu tónleikum Nirvana á MTV sjónvarpsstöðinni um ári áður en hann dó. 

Umfjöllunin er úr fréttaskýringaþættinum Heimskviður. Þáttinn má hlusta á hér: 

Ímynd X-kynslóðarinnar

Á mánudaginn var, þann 5. apríl, voru 27 ár frá því að Kurt Cobain svipti sig lífi. Tuttugu og sjö ár, jafn mörg ár og hann sjálfur lifði.

„Það var auðvitað aðdragandi að andláti hans getum við sagt. Bara nokkrum vikum áður hafði hann tekið svefnpillur og orðið meðvitundarlaus á hótelherbergi í Róm að mig minnir,“ segir Sigmar Guðmundsson, dagskrárgerðamaður í sjónvarpi og útvarpi til fjölda ára.

„Það voru alltaf í gangi í tónlistartímaritunum og víðar sögur um það hvað hann var í mikilli eiturlyfjaneyslu. Hann var auðvitað forfallinn heróinfíkill. Honum leið alltaf mjög illa. Það voru mörg viðvörunarljós sem þarna blikkuðu en það átti kannski enginn von á því að þetta færi svona. Og þetta varð auðvitað heimsfrétt á einni nóttu. Þetta var kannski ekki eins og þegar Lennon var myrtur en það urðu allir alveg gríðarlega slegnir. Hann var svo fyrirferðamikill hann Kurt Cobain, þó hann vildi það kannski ekki sérstaklega sjálfur, sem einhvers konar ímynd X-kynslóðarinnar,“ segir Sigmar. Hann vann einmitt á útvarpsstöðinni X-inu, heimavelli Nirvana, í apríl árið 1994, þegar fregnirnar bárust af því að Cobain væri allur, langt fyrir aldur fram. 

„Það stoppaði ekki síminn af fólki sem vildi að við spiluðum tónlistina. Fólk hringdi mikið inn til að fá að tjá sig um tónlistarmanninn bara við okkur sem vorum að spila tónlistina. Við vorum nokkurn veginn eina útvarpsstöðin sem vorum að spila þessa tónlist á sínum tíma. Það varð bara heilmikið uppnám. Það er kannski erfitt að átta sig á því í dag, en hann var svo stórt nafn. Hann var svo mikið tákn fyrir heila kynslóð,“ segir Sigmar. 

27 ára hópurinn

Cobain varð 27 ára. Og bættist þar með í hóp fjölmargra þekktra tónlistarmanna sem einnig höfðu sett sitt mark á tónlistarsöguna en horfið af sjónarsviðinu 27 ára. 

Brian Jones, Janis Joplin, Jimi Hendrix og Jim Morrison. Þau fjögur, Jones, Joplin, Hendrix og Morrison dóu öll á tvegga ára timabili. Jones í júlí 1969, Joplin og Hendrix árið 1969 og Morrison í júlí árið 1971. Öll 27 ára.  

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Jim Morrison, söngvari The Doors.

Síðar átti nafn Amy Wiehouse eftir að bætast í þessa dapurlegu upptaliningu. 

Það er alltaf hræðilegt þegar ungt fólk deyr. Og ekki síst þegar fólk sér enga aðra leið út úr vanlíðan sinni en að hætta að lifa, þrátt fyrir að á hverju strái sé hægt að sækja sér aðstoð. En dauði Kurt Cobain, eins og þeirra sem hér að ofan voru talin, vakti umtalsverða athygi. 

Lagið sem setti allt á annan endann

Þremur árum áður en hann lést gaf Kurt Cobain ásamt vinum sínum tveimur í Nirvana út plötuna Nevermind, sem átti reyndar upphaflega að heita Sheep. Þeir æskuvinirnir Krist Novoselic höfðu skömmu áður ráðið til sín enn einn trommarann í tríóið Nirvana sem þá þegar hafði gefið út eina plötu, Bleach.  

Þeir þrír, Cobain, Novoselic og Grohl, tóku upp tólf laga plötuna Nevermind vorið 1991. Þrettánda auka-lagið er reyndar að finna á seinni útgáfum plötunnar. Kurt Cobain á öll lögin og alla textana, utan tveggja sem hann samdi með öðrum. Annað þeirra er Territorial Pissings, og svo eru þeir allir þrír skrifaðir fyrir laginu sem setti allt á annnan endann. 

MTV var nokkurs konar þungamiðja og slagpúls allra sem fylgdust með því vinsælasta í tónlist vesturlanda á þessum árum. Myndbandið við Smells Like Teen Spirit átti sinn þátt í því að koma tríóinu á kortið. 

„Þetta er svona lag, þú manst hvar þú varst þegar þú heyrðir það fyrst. Ég man að vinur minn kom í heimsókn og það var ógurlegur glampi í augunum á honum, og hann kom með plötuna inn. Ég setti hana á fóninn og þessi byrjun á plötunni hún algjörlega negldi mig niður eins og alla sem voru að fylgjast með rokktónlist á þessum tíma. Og með þessu opnunarlagi plötunnar opnuðust einhverjar óskiljanlegar flóðgáttir. Þessi tónlist sem er kannski í eðli sínu frekar þung, var allt í einu orðin aufúsugstur á útvarpsstöðvum sem eingöngu spiluðu popptónlist. Það var bara klikkað hvernig viðbrögðin við þessari plötu voru,“ segir Sigmar. 

Ein mest selda plata allra tíma

Upplagið átti upphaflega að vera 50 þúsund geisladiskar. Svo átti að sjá til. Til að gera langa sögu stutta þurfti að pressa þónokkur eintök til viðbótar. Nevermind seldist í um 30 milljónum eintaka um heim allan og er ein mest selda plata allra tíma. Ég segi til að gera langa sögu stutta, en í rauninni er þessi saga ekkert sérstaklega löng. Eins og trommarinn Dave Grohl lýsti síðar í viðtali hjá Jimmy Fallon fyrir nokkrum árum. 

Grohl lýsir þarna upphafi tónleikaferðarinnar sem skipulögð hafði verið til að fylgja eftir Nevermind. Þeir voru bókaðir á alls kyns tónleikastaði, suma sem rúmuðu frá 90 til 150 áhorfendur. Nokkuð sem rúmaði vel aðdáendafjölda sveitarinnar fyrir Nevermind, en ekki eftir að platan sló í gegn. Þegar þeir renndu í hlað á sendiferðabílum sem þeir notuðu til að komast á milli tónleikastaða beið þeirra urmull af fólki sem þráði fátt heitar en að komast á löngu uppselda tónleikana með Nirvana. 

Þeir Krist Novoselik voru saman í þessu umrædda viðtali. Tilefnið var að Nirvana var að fá pláss í frægðarhöll rokksins. Novoselic segir heiðurinn óvítræðan en að upphefðinni fylgi blendnar tilfinningar. Vinur þeirra Kurt hafi þarna verið látinn í ein 20 ár, hann ætti að vera hér með okkur segir Novoselic. 

Glaðlyndur krakki sem fannst gaman að teikna

Kurt Donald Cobain fæddist þann 20. febrúar árið 1967 í bænum Aberdeen í Washington. Hann ku hafa verið glaðlyndur krakki sem hafði gaman að því að teikna. Þegar Kurt var níu ára skildu foreldrar hans, nokkuð sem hann sagði síðar að hefði haft umtalsverð áhrif á líf hans og líðan allar götur eftir það. Hann bjó til skiptis hjá foreldum sínum en átti í stormasömum samskiptum við þau bæði. Svo mjög að eftir að hafa reynt í nokkur skipti að búa með þeim til skiptis flutti hann að heiman, bjó bæði hjá vinum og ættingjum en hafði stundum í engin hús að vernda.

Sjálfum þótti honum gaman síðar að segja frá því í viðtölum að lagið Something in the Way hafi hann samið þegar hann svaf um tíma undir brú yfir  Wishkah ána. Þá frásögn hafa þau sem til þekktu dregið í efa, þó Kurt og aðrir unglingar hafi hangið undir brúnni stundum væri ómöguelgt að eiga þar nætustað. En af hverju að skemma góða sögu með sannleikanum?

Og svo var það tónlistin. Hann átti kærustu um tíma, Toby Vale. Pönkdrottingu úr hljómsveit sem kallaðist Bikini Kill. Samband þeirra var Kurt innblástur við fjölmarga texta á Nevermind. Toby Vale notaði til að mynda svitalyktareyði sem kallaðist Teen Spirit.

Vinkona þeirra krassaði einhverju sinni á vegginn heima hjá Cobain, Kurt Smells Like Teen Spirit, Kurt lyktar eins og Teen Spirit.

Þá mun textinn við lagið Aneurysm vera skrifaður um líkamleg áhrif sem Toby Vail hafði á Cobain. „Ég elska þig svo mikið að ég æli.“

En það var ekki bara sambandið við Toby Vale sem lét Cobain líða líkamlega illa. Hann þjáðist öll sín fullorðinsár af ofsafengum magaverkjum, sem fáum lækum tókst að aðstoða hann við að kveða niður. Hann lýsti líðaninni svona í viðtali við MTV sjónvarpsstöðina stuttu áður en hann lést. 

„Ég var svo kvalinn að mér varð sama um allt. Mér var meira að segja sama um hvort ég lifði eða ekki. Á sama tíma og mér leið þannig varð hljómsveitin mín gríðarlega fræg. Vanlíðanin hafði byggst upp svo lengi að mig langaði hreinlega ekki að lifa lengur. Og ég hugsaði að ég ætlaði að drepa mig ætti ég bara að taka eiturlyf, mér leið hvort sem er eins og eiturlyfjafíkli,“ sagði Kurt Cobain. 

Textarnir samansafn af ljóðum og rusli

En það voru ekki bara magaverkirnir. Cobain glímdi við andlega erfiðleika sem síst bötnuðu með síaukinni fíkniefnaneyslu. Kurt átti líka í erfiðleikum með frægðina, á meðan hann þráði að slá í gegn og að spila tónlist sína fyrir heiminn, fyrirleit hann marga af fylgifiskum frægðarinnar. Eftirlit og óþolandi spurningar fjölmiðlafólks, og skoðanir almennings á tónlist þeirra og hegðun. Og að vera endalaust inntur eftir útskýringum á textum sínum, sem Cobain sagði oft bara samansafn af ljóðum og einhverju rusli. 

Cobain segist þarna vera latur og oft semja textana sína bara á síðustu stundu, merkingin sé ekki dýpri en það. Síðar hafi hann viljað semja texta þar sem merkingin fór ekkert á milli mála. 

Lagið Rape Me er dæmi um þetta, textann átti ekki að vera hægt að misskilja eða snúa út úr. En meira að segja þessi fremur auðskiljanlegi texti var túlkaður sem pilla Cobains á umfjöllun um hann og eiginkonu hans, Courtney Love, í tímaritinu Vanity Fair. 

Textinn var kannski auðskiljanlegur,en lagið var ekki allra. Nirvana voru eitt aðal númerið á MTV verðlaunahátíðinni árið 1992. Þar á bæ var hins vegar lagt blátt bann við því að lagið Rape me yrði spilað fyrir óharðnaða áhorfendurna. Það þótti Cobain og félögum hans of freistandi áskorun og hófu leika með því að spila upphafið af laginu. Mjög litlu munaði víst að útsendingastjórar stæðu við fyrirmæli um að rjúfa útsendinguna, þegar Nirvana skiptu snarlega yfir í lagið Lithium.  Upptöku af atvikinu má sjá á myndskeiðinu hér að neðan. 

Sid og Nancy

Við minntumst þarna áðan á Courtney Love, ekki höfðu fjölmiðlar minni áhuga á Cobain eftir að hann byrjaði með henni, forsprakka hljómsveitarinnar Hole.

Þau voru kölluð Sid og Nancy síns tíma. Sid Vicious var bassaleikari Sex Pistols, Nancy Spungen var unnusta hans. Þau hefðu líklega seint flokkast með áhrifavöldum sem eru besta útgáfan af sjálfum sér. Þau léku hlutverk andhetjanna vel, neyttu eiturlyfja, slógust og gáfu umheiminum fokkmerki. Nancy fannst látin á Hótel Chelsea í NewYork árið 1978, hún hafði verið stungin í kviðinn. Vicious var handtekinn en fór aldrei fyrir dóm. Hann lést úr ofneyslu heróíns tæpu hálfu ári eftir dauða Nancyar. 

Mynd með færslu
 Mynd: Arne S. Nielsen - Riksarkivet
Sid Vicious, bassaleikari Sex Pistols.

Heróín kom einnig talsvert við sögu í lífi Kurt Cobain og einnig reyndar Courtney Love. 

Þau eignuðust dótturina Frances Bean árið 1992 og voru undir ströngu eftirliti barnaverndarnefndar fyrstu mánuðina eftir að hún fæddist vegna eiturlyfjaneyslu. Fjölmörg önnur vímu- og fíkniefni komu reyndar umtalsvert við sögu í lífi Cobains áður en heróínneyslan hófst. 

Kurt sagði sjálfur frá því að heróínið væri það eina sem slægi á tíða og sársaukafulla magaverkina. Hann var nokkrum sinnum endurlífgaður eftir að hafa innbyrt allt of stóra skammta af stundum heróíni og stundum öðrum vímugjöfum. Eftir þrýsting frá sínum nánustu skráði Kurt Cobain sig inn á meðferðarstofnun í Los Angeles í lok mars 1994. Nokkrum dögum síðar strauk hann þaðan og flaug heim til Seattle. Hann ákvað að stytta jarðvist sína í bílskúr við heimili sitt þar sem hann fannst eftir nokkurra daga leit. 

Þúsundir sóttu minningarathöfn sem var haldin honum til heiðurs. Nokkrum árum síðar, árið 1999, hélt fjölskyldan sína eigin athöfn. Þar sáldraði Frances Bean ösku föður síns í McLane-víkina í bænum Olympiu, bænum þar sem tónlistarmaðurinn Kurt Cobain varð til. 

Árið 2005 var sett upp skilti við heimabæ Cobains, Aberdeen. Þar stendur Welkomin til Aberdeen - Come As You Are. 
 

Risastórt menningarfyrirbæri

Eftir stendur tónlistin, og arfleifðin. Nafn Kurt Cobain er iðulega að finna á listum sérfróðra um bestu gítarleikara og tónlistarmenn sögunnar og tónlistin hans sömuleiðis.

Í fyrra seldist Martin-gítar sem Cobain notaði á órafmögnuðu tónleikunum á MTV fyrir metfé, tæpar 800 milljónir íslenskra króna. Og varð þar með dýrasti gítar tónlistarsögunnar til að seljast á uppboði. Verðmæti hans er metið á sama hátt og þvældu peysunnar sem við sögðum frá í upphafi þessa pistils, hann er verðmætur vegna þess að hann var handfjatlaður af Kurt heitnum Cobain. 

„Hann skilur eftir sig tónlistarverk sem lifa mjög góðu lífi í dag. Þegar tónlist er enn á lífi eftir allan þennan tíma þá er eitthvað merkilegt í gangi. Þessi hljómsveit og hann eru auðvitað risastórt menningarfyrirbæri og sem slíkt eru áhrifin auðvitað mjög mikil. Ég er ekki í neinum vafa um það að ef hann hefði lifað, þó að hann hefði hætt að semja tónlist, þá væri tónlistin hans á lífi í dag. En svona endalok magna auðvitað upp einhverja mysteríu sem er í kringum hann,“ segir Sigmar Guðmundsson.  

Píeta samtökin sinna forvarnarstarfi gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða og hægt er að hringja allan sólarhringinn í hjálparsíma Rauða krossins, 1717 eða hafa samband við netspjallið 1717.is.

 

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV